Ríkisstjórnin hefur gumað mikið af því undanfarið, að hún hafi verið að gera stórátak í lífeyrismálum aldraðra. En hver er sannleikurinn í því máli? Hann er sá, að ríkisstjórnin hefur stigið hænufet í lífeyrismálum aldraðra. Lífeyrir aldraðra einstaklinga (einhleypinga) frá Tryggingastofnun er nú 123 þúsund krónur á mánuði fyrir skatta..Miðað er við þá sem ekki eru í lífeyrissjóði og verða að treysta eingöngu á almannatryggingar. Ríkisstjórnin ætlar að hækka þessa fjárhæð um 3 þúsund krónur um áramót eða í 126 þúsund krónur. Þetta kalla ég hænufet.Það breytir litlu eða engu hvort lífeyrisþeginn fær 123 þúsund eða 126 þúsund. Það er jafnmikil hungurlús eftir sem áður og engin leið að lifa mannsæmandi lífi af þessari fjárhæð. Af þessari fjáhæð verður lífeyrisþeginn að greiða skatta og verða þá aðeins um 107 þúsund krónur eftir þegar þeir hafa verið greiddir.- Fyrr í sumar samdi ASÍ við atvinnurekendur um leiðréttingu á launum launþega vegna verðbólgunnar og inn í því samkomulagi var, að aldraðir fengju svipaða leiðréttingu en rausnarskapur ríkisstjórnarinnar var slíkur, að aðeins 400 lífeyrisþegar fengu fulla leiðréttingu.
Mega vinna fytrir 25 þúsund á mánuði!
Ekki tekur betra við þegar athugað er hvað lífeyrisþegar mega vinna mikið án þess að bætur þeirra verði skertar. Það eru 25 þúsund krónur á mánuði. Þetta er hlægilega lág upphæð. Ríkisstjórnin ætlaði upphaflega að láta það ekki taka gildi fyrr en á árunum 2009 og 2010, að lífeyrisþegar mættu vinna fyrir einhverju lítilræði án þess að bætur þeirra væru skertar. En nú hefur hún flýtt gildistökunni til næstu áramóta vegna þrýstings frá samtökum aldraðra.Telur ríkisstjórnin sig hafa unnið stórvirki með því að flýta gildistöku á þessu lítilræði til næstu áramóta! En þetta er aðeins hænufet,sem ríkisstjórnin er að stíga.
Aldraðir eru reiðir og vonsviknir
Eldri borgarar eru bæði reiðir og vonsviknir vegna framkomu ríkisstjórnarinnar við þá.Ríkisstjórnin hefur komið mjög illa fram við aldraðra.Hún hefur hundsað þá og hafnað réttlátum kröfum þeirra um kjarabætur. Það sem ríkisstjórnin hefur gert í kjaramálum aldraðra er alger hungurlús.Neysluútgjöld einstaklinga samkvæmt nýrri könnun hagstofunnar eru nú 210 þúsund á mánuði.Ríkisstjórnin lætur aldraða einstaklinga,sem ekki eru í lífeyrirssóði, fá 123 þúsund á mánuði.Það lifir enginn mannsæmandi lífi af þeirri fjárhæð og það vantar 87 þúsund krónur á mánuði upp á að þessi lífeyrir nái meðaltals neysluútgjöldum einstaklinga samkvæmt könnun Hagstofunnar.Nú finnst eldri borgurum mælirinn fullur.Þess vegna ræða þeir nú í fullri alvöru um sérframboð til alþingis. En það er enn tími til stefnu fyrir stjórnmálaflokkana. Ríkisstjórnin getur enn tekið sig á og stjórnarandstaðan getur stórbætt tillögur sínar. Þær ná enn ekki nógu langt.
Björgvin Guðmundsson
Birt í Morgunblaðinu 23.desember 2006