Til umræðu er nú á ný hvort hleypa eigi útlendingum inn í útgerðina á Íslandi.Þetta hefur lengi veriðdeilumál á Íslandi. Evrópusambandið hefur sótt það fast að fá að fjárfesta í íslenskum útgerðarfyrirtækjum. En Íslendingar hafa til þessa staðið fast á móti því. Það vakti athygli,að utanríkisráðherra tók jákvætt í þetta í ræðu sinni á sjávarútvegsráðstefnu á Akureyri fyrir stuttu. Taldi hann,að í framtíðinni mundi þetta verða leyft.Forstjóri kauphallarinnnar tók einnig jákvætt í þetta svo og forstjóri Samherja.Davíð Oddsson,fráfarandi forsætisráðherra, hefur hins vegar lagst gegn þessu.
Ef útlendingum verður leyft að fjárfesta í íslenskum útgerðarfyrirtækjum komast þeir bakdyramegin inn í okkar fiskveiðilögsögu. Það yrði mjög slæmt. Það hefur kostað okkur of mikla baráttu að færa fiskveiðilögsöguna út til þess að við látum útlendinga njóta ávaxtanna af því.
Í dag er það svo að óbein erlend aðild í íslenskum útgerðarfyrirtækjum upp að vissu marki er leyfð. En ekki bein erlend aðild.Erlend fjárfesting í fiskvinnslu,þ.e. úrvinnslu úr frumframleiðslu er leyfðen ekki í fiskiskipum,frystingu,söltun eða skreiðarvinnslu. Útlendingar hafa ekki haft mikinn áhuga á því að fjárfesta í úrvinnslu fisks. Þeir hafa aðeins áhuga á því að eignast hlut í okkar fiskiskipum og útgerðarfélögum svo þeir komist inn í okkar fiskveiðilögsögu.
Menn færa þau rök fyrir því að hleypa eigi útlendingum inn í okkar útgerðarfyrirtæki,að Íslendingar fái að fjárfesta í erlendum útgerðarfyrirtækjum.Á sama hátt mætti segja,að Íslendingar ættu að leyfa útlendingum að veiða í fiskveiðilögsögu okkar,þar eð við fáum að veiða í fiskveiðilögsögu annarra ríkja. En það gengur ekki. Við getum hvorki hleypt útlendingum með fjármagn inn í okkar útgerð né veitt þeim veiðiheimildir í okkar fiskveiðilögsögu.
Íslendingar hafa ítrekað reynt að fá fulla fríverslun í ESB fyrir þær fáu fiskafurðir,sem fríverslun( tollfrelsi) tekur enn ekki til. En ESB hefur sagt nei. ESB hefur þó talið koma til greina að semja um þessi tollfríðindi,ef Ísland samþykkti að leyfa fyrirtækjum innan ESB að fjárfesta í íslenskri útgerð. Áður hafði ESB reynt að fá veiðiheimildir við Ísland á móti tollfríðindum. Ísland hefur staðist hvort tveggja með þeirri litlu undantekningu,að við gerð EES samningsins fékk ESB örlitla heimild til þess að veiða langhala og karfa í íslenskri fiskveiðilögsögu.En ESB hefur gengið illa að ná því magni.
Það veldur vonbrigðum,að utanríkisráðherra skuli nú taka jákvætt í það,að leyfa útlendingum að fjárfesta í íslenskri útgerð. Eina bótin er sú,að fráfarandi forsætisráðherra er algerlega á móti því.
Björgvin Guðmundsson
|