Umræður urðu á alþingi 10.mars sl. um erlendar skuldir Íslands. Steingrímur J.Sigfússon þingmaður og formaður VG sagði,að þjóðarbúið væri nú skuldugra erlendis en nokkru sinni fyrr og hefðu hreinar erlendar skuldir farið í 100% landsframleiðslu árið 2001. Erlendar skuldir væru alls á annað þúsund milljarðar króna og færu vaxandi.
Skuldir heimilanna 820 milljarðar
Steingrímur var málshefjandi í umræðunni. Sagði hann,að matsfyrirtæki og erlendar efnahagsstofnanir hefðu hvað eftir annð beint sjónum sínum að miklum erlendum skuldum Íslands. Einkum væru það skammtímaskuldir,sem vektu athygli þessara aðila.Það eru einkum atvinnufyrirtæki,sveitarfélögin og heimilin,sem hafa safnað gríðarlegum skuldum undanfarið,sagði Steingrímur. Ríkissjóður og Seðlabanki hafa hins vegar bætt stöðu sína. Skuldir heimilanna við lánakerfið voru áætlaðar um 820 milljarðar í lok árs 2003 eða rúmlega 180% af ráðstöfunartekjum.Steingrímur J. Sigfússon sagði,að helst væru það Danir og Hollendingar sem væru jafnokar okkar í skuldasöfnun erlendis. Þessi mikla skuldasöfnun erlendis veldur áhyggjum hjá Seðlabankanum. Las Steingrímur upp á alþingi hluta úr bréfi frá Seðlabankanum,þar sem bankastjórnin lýsir áhyggjum yfir hröðum vexti útlána hjá bönkunum og mikilli erlendri fjármögnun til skamms tíma.
300 milljarða skuldaaukning banka sl. ár
Forsætisráðherra,Davíð Oddsson sagði,að erlendar skuldir viðskiptabankann hefðu aukist um 300 milljarða sl.ár. Hins vegar hefði ríkið verið að greiða niður skuldir sínar á síðustu árum.Ráðherrann sagði,að full ástæða væri til þess að vara við því,að of geyst væri farið í erlendum lántökum með breytilegum vöxtum. Vextir væru nú lágir en allt benti til,að þeir mundu hækka er fram liðu stundir og mundi þá vaxtabyrði lánanna aukast að sama skapi. Við þetta gæti bætst gengisáhætta,sérstaklega hjá þeim fyrirtækjum,sem ekki hefðu tekjur í erlendri mynt. Ráðherra sagði,að stór hluti erlendra lána hefði farið í að fjármagna yfirtökur fyrirtækja, t.d. skuldsettar yfirtökur og umbrot á fjármálamarkaði hér.
“ ...þjóðarbúið væri nú skuldugra erlendis en nokkru sinni fyrr og hefðu hreinar erlendar skuldir farið í 100% af landsframleiðslu árið 2001.Erlendar skuldir væru alls á annað þúsund milljarðar króna og færu vaxandi.”
|