Hvers vegna hrynur fylgi Framsóknarflokksins?Fréttablaðið birti úrslit skoðanakönnunar um fylgi flokkanna föstudaginn 4.febrúar sl. Samkvæmt þeirri könnun fengi Framsóknarflokkurinn 8% atkvæða, ef þingkosningar færu fram í dag en 4% í borgarstjórnarkosningum í Reykjavík.Þetta er algert fylgishrun hjá Framsóknarflokknum.Talsmenn Framsóknarflokksins vilja gera lítið úr þessu og segja,að Framsókn fái mikið meira fylgi í kosningum en í skoðanakönnunum. Það hafi ávallt verið svo.
Framsókn hefur villst af leið
En einhver skýring hlýtur að vera á því,að Framsókn mælist með svona lítið fylgi í skoðanakönnunum. Jú skýringin er sú,að megn óánægja er meðal fyrri kjósenda Framsóknar með flokkinn.Kjósendum finnst flokkurinn hafa villst af leið og verið of leiðitamur Sjálfstæðisflokknum.Framsóknarflokkurinn var stofnaður til þess að berjast fyrir félagshyggju og samvinnustefnu en hefur nú um langt skeið hjálpað Sjálfstæðisflokknum við að framkvæma skefjalausa auðvaldsstefnu og peningahyggju.Misskipting í þjóðfélaginu hefur stóraukist,hinir ríku hafa orðið ríkari og hinir fátæku hafa orðið fátækari.Kjör aldraðra og öryrkja eru til skammar. Fátækt hefur aukist verulega í landinu.Mikil óánægja er einnig meðal kjósenda Framsóknar með stefnu flokksins og ríkisstjórnarinnar í Íraksmálinu.84% þjóðarinnar var andvíg því að Ísland skyldi leggja blessun sína yfir innrás Bandaríkjanna og Bretlands í Írak.Stór hluti Framsóknarflokksins er í þeim hópi.Framsóknarflokkurinn hefur alltaf áður stutt frið í heiminum en nú leggur formaður flokksins blessun sína yfir árás á annað ríki og vill ekki biðjast afsökunar á þeim mistökum enda þótt í ljós hafi komið,að innrásin í Írak var gerð á fölskum forsendum.
Stóll forsætisráðherra ekki bætt ástandið
Margir forustumenn Framsóknar bundu vonir við það,að fylgi flokksins mundi aukast við það,að formaður flokksins settist í forsætisráðherrastólinn.En það hefur orðið þveröfugt. Fylgi flokksins hefur minnkað síðan formaður Framsóknar varð forsætisráðherra. Þetta er vegna þess,að Framsókn fékk stólinn frá Davíð Oddssyni en ekki frá forseta Íslands eftir kosningar.Þetta voru einfaldlega hrossakaup stjórnarflokkanna, sem gerð voru til þess að framlengja völd ríkissstjórnarinnar,sem tapaði fylgi í síðustu kosningum og hefði átt að fara frá völdum, ef eðlilegum lýðræðislögmálum hefði verið fylgt. Kjósendum Framsóknar finnst stóllinn of dýru verði keyptur. Málefnum Framsóknarflokksins hefur verið fórnað í hrossakaupum stjórnarflokkanna.Það er alger hégómi að sækjast eftir embætti forsætisráðherra,þegar staða Framsóknar er eins og hún er í dag.Flokkurinn hefði frekar átt að leggja áherslu á það að koma fleiri stefnumálum Framsóknarflokksins fram.En það gerði Framsókn ekki heldur mat meira hégómann.Þess vegna refsa kjósendur nú Framsóknarflokknum.
Björgvin Guðmundsson
Birt í Fréttablaðinu 19.febrúar 2005
|