Ekki verður sagt,að úrslit þingkosninganna hafi komið mikið á óvart.Skoðanakannanir höfðu gefið ákveðna vísbendingu um það, sem verða vildi.Það var t.d. búið að spá fyrir um góða útkomu Framsóknarflokksins eftir að Framsókn hafði samkvæmt skoðanakönnunum verið með óbreytt fylgi, í kringum 12%, allt kjörtímabilið.Loforð Framsóknar um að ætla að heimta fé af kröfuhöfum þrotabúa bankanna og færa það skuldsettum heimilum hitti í mark og færði Framsókn mikinn fjölda atkvæða.Segja má, að þetta hafi verið eina kosningamál Framsóknarflokksins. Má vissulega gagnrýna það, að gamalgróinn flokkur með ákveðna hugmyndafræði, skuli reka heilar þingkosningar á einu kosningaloforði.Nú er eftir að sjá hvernig Framsókn gengur að efna þetta kosningaloforð.
Sjálfstæðisflokkurinn var einnig með mikil loforð enda þótt þau stæðust ekki samjöfnuð við loforð Framsóknar. En Sjálfstæðisflokkurinn lofaði bæði skattalækkun og skuldalækkun, þannig að skattalækkunin ætti að ganga til greiðslu inn á íbúðalán viðkomandi skuldara.Framsóknarflokkurinn skar sig þó úr varðandi veitingu mikilla kosningaloforða.En Sjálfstæðisflokkurinn kom í humátt á eftir.
Hógvær loforð stjórnarflokkanna
VG sagði,að flokkurinn vildi veita 50-60 milljörðum á næsta kjörtímabili til eflingar heilbrigðiskerfinu,menntakerfinu og velferðarkerfinu.Hér er um að ræða 12,5-15 milljarða útgjaldauka á ári í 4 ár. Samfylkingin kvaðst vilja færa þeim íbúðareigendum, sem haft hefðu lánsveð, aðgang að fyrirgreiðslu samkvæmt 110% leiðinni og veita þeim aðstoð, sem keypt hefðu íbúð síðustu 2-3 árin fyrir hrun.Miðað við hástemmd loforð Framsóknar og Sjálfstæðisflokks er hér um hógvær loforð að ræða. Allt er í óvissu með það, hvort Framsókn muni takast að ná einhverjum fjármunum af þrotabúum bankanna.Sennilega fæst ekki úr því skorið fyrr en eftir langan tíma. Og ef einhverjir fjármunir nást af þrotabúunum fyrir íslenska ríkið er eftir að ákveða hvernig eigi að ráðstafa þeim fjármunum.
Útkoma Sjálfstæðisflokksins í kosningunum var ekki góð miðað við árangur flokksins á undanförnum áratugum.En hún var nokkru betri en í kosningunum 2009. Útkoma stjórnarflokkanna var mjög slæm.Samfylkingin beið afhroð.Kjósendur voru greinlega búnir að gleyma því hverjir báru ábyrgð á hruninu. Þeir voru búnir að gleyma hverjir komu bönkunum í hendur einkavina, sem kunnu ekki að reka banka en breyttu þeim í braskfyrirtæki og settu þá á hausinn á skömmum tíma. Það var frjálshyggja Sjálfstæðisflokks með aðstoð Framsóknar, sem setti bankana og efnahagslífið á hliðina.Samkvæmt frjálshyggjunni mátti ekki hafa neitt eftirlit með bönkunum. Allt átti að vera frjálst og markaðurinn átti að leiðrétta sig sjálfur. Þetta brást.Nú er spurning hvort innleiða á að nýju þessa gjaldþrota stefnu.
Refsað fyrir svikin kosningaloforð
Kjósendur voru að refsa stjórnarflokkunum fyrir svikin kosningaloforð og fyrir lífskjaraskerðingu krepputímans.Stjórnarflokkarnir sviku loforðið um að koma á fyrningarleið við stjórn fiskveiða.Í stað þess að innkalla kvótana á 20 árum eins og lofað var og úthluta þeim á ný smátt og smátt á réttlátan og sanngjarnan hátt ætlaði ríkisstjórn Samfylkingar og VG að afhenda kvótakóngunum veiðiheimildirnar til 20 ára og rúmlega það. Fyrir það refsuðu kjósendur stjórnarflokkunum.Stjórnarflokkarnir lofuðu þjóðinni nýrri stjórnarskrá.Við það stóð stjórnin ekki. Fyrir það refsuðu kjósendur stjórnarflokkunum. Stjórnarflokkarnir lofuðu að standa vörð um velferðarkerfið og gæta hagsmuna aldraðra og öryrkja.Við það stóðu stjórnarflokkarnir ekki að fullu.Kjör aldraðra og öryrkja voru skert og lofað að afturkalla þá skerðingu. Við það var ekki staðið.Skerðing á kjörum aldraðra og öryrkja frá 1.júlí 2009 var tímabundin.Það hlaut því að þurfa að afturkalla þá skerðingu fyrir lok kjörtímabilsins.Það var ekki gert.Þess vegna refsa kjósendur Samfylkingunni og VG.
Ekki á að refsa öldruðum fyrir að vinna eða spara
Aðeins einn hluti kjaraskerðingar aldraðra og öryrkja fellur úr gildi í lok þessa árs, þ.e. hærra skerðingarhlutfall tekjutryggingar.En aðrir hlutar kjaraskerðingarinnar haldast í gildi.Mikill fjöldi elli-og örorkulífeyrisþega missti grunnlífeyri sinn við breytingu á útreikningi grunnlífeyris. Þeir,sem misstu grunnlífeyrinn, eiga að fá hann á ný að öðru óbreyttu.Og það verður að hækka frítekjumarkið vegna atvinnutekna aldraðra strax. Einnig þarf að hækka frítekjumark vegna fjármagnstekna lífeyrisþega. Það á ekki að refsa öldruðum fyrir að vinna og/eða spara.Samfylkingin hefur áreiðanlega tapað mörgum atkvæðum aldraðra og öryrkja vegna þess hvernig kjaramálum þeirra var klúðrað.Það var svikist um að afturkalla kjaraskerðinguna frá 1.júlí 2009. Það ákvæði laga, að lífeyrir aldraðra og öryrkja ætti að hækka í samræmi við breytingar á lægstu launum var tekið úr sambandi og svikist um að leiðrétta lífeyri.Það er liðin tíð, að unnt sé að svíkja kosningaloforð án þess að kjósendur svari fyrir sig.Það kom vel fram í kosningaúrslitunum.
Björgvin Guðmundsson
Birt í Mbl. 11.mai 2013 |