Steingrímur Hermannsson fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins var í viðtali í Silfri Egils sunnudaginn 26.mars sl. Athygli vakti,að í viðtalinu talaði Steingrímur eins og jafnaðarmaður. Hann gagnrýndi það,að velferðarkerfið hefði þurft að láta undan síga undanfarin ár í tíð núverandi stjórnarflokka. Hann kvað nauðsynlegt að efla velferðarkerfið.Nefndi hann í því sambandi heilbrigðiskerfið og menntakerfið. Hvort tveggja þyrfti að efla. Hann gagnrýndi niðurskurðinn til Landspítala,Háskólasjúkrahúss og kvað það alrangt að Íslendingar eyddu of miklu í heilbrigðiskerfið.Þá kvaðst Steingrímur vera andvígur skólagjöldum. Hann kvað alla,án tillits til efnahags,þurfa að eiga möguleika á námi við Háskóla Íslands.
Gagnrýndi græðgisstefnuna
Steingrímur sagði,að óhjákvæmilegt hefði verið að hefja einkavæðingu og ekki taldi hann meiri fákeppni nú en áður nema síður væri. Ekki væri því þörf á sérstökum ráðstöfunum gegn fákeppni. Hins vegar gagnrýndi Steingrímur harðlega græðgisstefnuna. Hún hefði gengið út í öfgar. Hann kvaðst sakna þess,að bankarnir sinntu þjónustuhlutverki við almenning og fyrirtæki eins og áður hefði verið. Nú væru bankarnir teknir að ráðskast með atvinnufyrirtækin og farin að búta þau í sundur. Það væri ekki hlutverk þeirra. Kvaðst hann sammála gagnrýni Árna Magnússonar,félagsmálaráðherra í því efni.
Innrásin í Írak óráð
Steingrímur gagnrýndi innrásina í Írak harðlega og sérstaklega gagnrýndi hann,að íslensk stjórnvöld skyldu styðja hana. Hann sagði,að það væru í gangi átök milli tveggja menningarheima,bókstafstrúarmanna múslima og bókstafstrúarmanna vestrænna landa eins og Bush. Innrásin í Írak hefði gert illt verra. Það væri verra ástandið í heiminum í dag en fyrir innrásina og verra ástand í dag en eftir að Berlínarmúrinn féll.
Björgvin Guðmundsson
|