Bandaríkin hafa nú tilkynnt,að þau fari í september n.k. með herþoturnar og herliðið frá Keflavíkurflugvelli. Þessi tilkynning kemur ekki á óvart. Það hefur lengi verið ljóst,að Bandaríkjamenn væru á förum frá Keflavíkurflugvelli enda þótt ríkisstjórnin hafi alltaf lamið hausnum við steininn.
Hinn 3.mars sl. skrifaði ég eftirfarandi um mál þetta:
Viðræður Íslands og Bandaríkjanna um varnarmál hafa nú hafist á ný. Það þykja stórfréttir, að Bandaríkin skuli láta svo lítið að tala við Íslendinga enda þótt engar fréttir af efni viðræðnann hafi borist. Víst þykir þó, að viðræðurnar snúist fyrst og fremst um það hvað Íslendingar vilji borga mikið. Málum er sem sagt komið þannig, að það fer eftir því hvað Íslendingar reiða fram mikla peninga, hvort Bandaríkin halda áfram uppi loftvörnum hér á landi eða ekki.Er það undarleg staða þegar haft er í huga, að í gildi er varnarsamningur milli Íslands og Bandaríkjanna og samkvæmt honum eiga Bandaríkin að annast varnir Íslands.Það stendur ekkert í samningnum um það, að Ísland eigi að greiða fyrir varnirnar. Þegar Davíð var forsætisráðherra sagði hann, að ef Bandaríkin vildu ekki standa við samninginn gætu þeir farið heim með allt sitt hafurtask. Undir það skal tekið.
Vildu flytja herþoturnar á brott
Staða varnarliðsins komst á dagskrá hér um síðustu kosningar, þegar Bandaríkjamenn tilkynntu skyndilega einhliða, að þeir ætluðu að flytja herþoturnar fjórar á brott frá Keflavíkurflugvelli. Ríkisstjórnin stakk bréfi um þetta efni undir stól og birti ekki fyrr en eftir kosningar! Síðan hefur staðið í stanslausu stappi um það hvort unnt væri að fá Bandaríkjamenn til þess að falla frá því að flytja herþoturnar á brott. Bandaríkjamenn telja enga þörf á því að hafa þoturnar lengur staðsettar á Keflavíkurflugvelli. Þeir telja unnt að sinna flugvörnum Íslands frá Bretlandseyjum. Jafnframt hefur komið skýrt í ljós af hálfu bandarískra embættismanna, að þeir telja ekki lengur þörf á varnarliði hér á landi vegna breytts ástands í varnarmálum í Evrópu. En íslensk stjórnvöld hafa lamið hausnum við steininn og óskað eftir því, að varnarliðið og herþoturnar verði áfram hér á landi hvað sem líði áliti Bandaríkjanna á nauðsyn varna á Íslandi.Verður þess ekki vart, að Bush Bandaríkjaforseti meti mikils “greiðann”, sem íslenskir stjórnarherrar gerðu honum með því að styðja ólöglegt árásarstríð hans á Írak. Eftir nokkurt þref íslenskra og bandarískra stjórnvalda komu Bandaríkjamenn með þá tillögu, að Íslendingar tækju þátt í kostnaði við veru varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli! Íslendingar eiga sem sagt að borga fyrir að fá að hafa herinn áfram.Þannig stendur málið nú.
NATO meti málið
Ágreiningur um skiptingu kostnaðar er mjög mikill og eru Bandaríkjamenn með óraunhæfar hugmyndir um hlut Íslendinga í kostnaðinum.Til þess að fegra málið er látið líta svo út, að Ísland vilji greiða fyrir þyrlusveitir Keflavíkurflugvallar og rekstur flugvallarins a.m.k að hluta til. Ég tel, að best væri, að herinn færi frá Íslandi. Varnarliðið kom hingað að frumkvæði Bandaríkjanna vegna ótryggs ástands í heiminum á meðan ógn stafaði frá Sovetríkjunum. Sú ógn er ekki lengur til staðar og Bandaríkjamenn vilja fara með herinn á brott. Við eigum að leyfa þeim það. Síðan eigum við að ræða við NATO og jafnvel Evrópusambandið um varnir Íslands og biðja NATO að meta nauðsyn Íslands fyrir varnarviðbúnað í landinu. NATO á að tryggja varnir Íslands en þær eiga ekki að byggja á tvíhliða samningi við Bandaríkin,þar eð slíkur samningur miðast við hagsmuni Bandaríkjanna fyrst og fremst.
Björgvin Guðmundsson
Birt í Fréttablaðinu 3.mars 2006