Málefni eldri borgara voru mjög í brennidepli við nýafstaðnar sveitarstjórnarkosningar.Allir stjórnmálaflokkar lofuðu úrbótum í málefnum aldraðra. Nú er eftir að sjá hvernig staðið verður við loforðin.
Gefum, stjórnmálaflokkunum eitt tækifæri enn
Það er aðeins eitt ár til þingkosninga.Margir eldri borgarar og þar á meðal formaður Landssambands eldri borgara hafa sagt, að eldri borgarar ættu að bjóða fram við næstu kosningar, ef ekki yrðu gerðar myndarlegar úrbætur í málefnum þeirra. Þetta er mjög athyglisverð hugmynd. Ég tel, að gefa eigi stjórnmálaflokkunum eitt tækifæri enn til þess að leysa mál aldraðra. En geri þeir það ekki eigi eldri borgarar að bjóða fram. Tillaga mín er þessi: Samtök aldraðra leggi fyrir stjórnmálaflokkana ákveðnar tillögur um lágmarksaðgerðir í málefnum þeirra,þ.e.eftirfarandi:
Aðgerðir strax
1.Hvað lífeyrir aldraðra frá almannatryggingum þurfi að hækka mikið strax.2. Hvað mikið þurfi að draga úr tekjutengingum tryggingabóta strax ( Vegna tekna úr lífeyrissjóði,makatekna og atvinnutekna).3.Hvaða aðgerðir þurfi að gera strax varðandi ný hjúkrunarrými og nýjar þjónustuíbúðir fyrir aldraða og hvaða aðgerðir þurfi að gera strax til þess að stuðla að því, að aldraðir geti verið sem lengst í heimahúsum.( Breytingar á íbúðum,lækkun fasteignagjalda aldraðra og aukningu og samþættingu heimaþjónustu og heimahjúkrunar).4.Hækkun skattleysismarka í 130 þúsund krónur á mánuði.
Þegar samtök aldraðra hafa ákveðið tillögur sínar um lágmarksaðgerðir skulu þær lagðar fyrir stjórnmálaflokkana.Þess verði óskað við stjórnarflokkana, að þeir framkvæmi tillögurnar strax eða í síðasta lagi um næstu áramót. Stjórnarandstaðan verði beðin að flytja strax tillögur á alþingi og í sveitarstjórnum um aðgerðir í málefnum aldraðra í samræmi við framangreindar tillögur.
Nauðsyn brýtur lög
Ef til vill finnst einhverjum,að hér mundi vera gengið fram að of mikilli hörku við stjórnmálaflokkana. En nauðsyn brýtur lög. Það er búið að níðast svo mjög á öldruðum undanfarin ár, að það dugar ekkert minna til leiðréttingar en það sem hér hefur verið tilgreint.
Ef ekki verður orðið við kröfum aldraðra þá eiga þeir að bjóða fram.
Björgvin Guðmundsson
Birt í Morgunblaðinu 8.júní 2006