Nokkuð hefur verið rætt um það í fjölmiðlum undanfarið,að Alþýðuflokksmenn væru óánægðir í Samfylkingunni.Ég get fullyrt,að það er enginn fótur fyrir þessum vangaveltum.Alþýðuflokksmenn eru ánægðir í Samfylkingunni.
Stefnan í anda jafnaðarstefnunnar
Samfylkingin var mynduð af Alþýðuflokknum,Alþýðubandalaginu,Kvennalistanum og
Þjóðvaka. Þessi sameining hefur tekist mjög vel og skapað þann sterka flokk sem Samfylkingin er í dag.Flokksmenn líta í dag á sig sem Samfylkingarmenn,sem jafnaðarmenn en kenna sig ekki við hina gömlu flokka,sem stóðu að sameiningunni. Það er því út í hött,þegar sjálfstæðismenn og aðrir eru að tala um, að áhrif Alþýðuflokksmanna séu lítil í Samfylkingunni.Í nýjum flokki snúast málin ekki um áhrif eða áhrifaleysi fyrrverandi flokka. Sem fyrrverandi Alþýðuflokksmaður get ég sagt,að ég er mjög ánægður með sameininguna og hinn nýja flokk.Ég tel stefnu Samfylkingarinnar vera í anda jafnaðarstefnunnar og forustumenn flokksins hafa tryggt að svo yrði.Ég er ánægður með þróun mála í Samfylkingunni.Ég hafði lengi alið þann draum,að jafnaðarmenn á Íslandi gætu sameinast í einum flokki.Ég tel,að sá draumur hafi nú rætst.
Ágreiningur A-flokkanna var úr sögunni
Ágreiningur A-flokkanna var ávallt fyrst og fremst um utanríkismál,um afstöðuna til Sovetríkjanna og til NATO.Þegar Sovetríkin liðuðust í sundur og kommúnisminn leið undir lok þar varð þessi ágreiningur úr sögunni.Það var hins vegar skaði,að félagar Vinstri grænna skyldu ekki telja sig geta tekið þátt í sameiningu jafnaðarmanna.Í hinum stóru jafnaðarmannaflokkum í Evrópu rúmast ólíkar skoðanir og því hefðu Vinstri grænir vel rúmast innan Samfylkingarinnar með sínar sér skoðanir, t.d. í utanríkismálum og umhverfismálum.
Leiðtogar Samfylkingarinnar,þau Össur Skarphéðinsson og Ingibjörg Sólrún,hafa staðið sig mjög vel. Össur leiddi flokkinn í upphafi sameiningarinnar þegar mjög var á brattann að sækja og á móti bles iðulega.Hann kom fylgi flokksins úr 16% í 31%. Yfirgnæfandi meirihluti flokksmanna vildi fá Ingibjörgu Sólrúnu sem framtíðarleiðtoga. Hún stóð sig mjög vel sem borgarstjóri og hefur staðið sig vel sem formaður Samfylkingarinnar fram að þessu.Ég spái því,að fylgi Samfylkingarinnar muni fljótlega fara yfir 30% undir hennar stjórn.
Björgvin Guðmundsson
fyrrverandi borgarfulltrúi
Alþýðuflokksins
Birt í Fréttablaðinu 27.des. 2005
|