Forsætisráðherra sagði í kastljósi Sjónvarpsins 6.desember sl.,að stuðningur Íslands við innrásina í Írak hefði ekki verið formlega samþykktur í ríkisstjórn.Áður hafði verið upplýst,að engin ákvörðun hafði verið tekin um málið á alþingi og málið var heldur ekki afgreitt í utanríkismálanefnd eins og lög gera ráð fyrir.
Heimildarlaus og ólögleg athöfn
Eftir þessar nýjustu upplýsingar forsætisráðherra er ljóst,að sú ráðstöfun forsætis-og utanríkisráðherra að setja Ísland á lista hinna staðföstu ríkja var heimildarlaus með öllu og ólögleg athöfn.
Í umræddum kastljósþætti sagði forsætisráherra,að innrásin í Írak hefði verið gerð til þess að koma Saddam Hussein frá völdum.Það er rangt. Innrásin var gerð til þess að uppræta gereyðingarvopn en Bandaríkin sögðu slík vopn vera í Írak.En einnig sögðu Bandaríkjamenn,að Íraksstjórn væri í sambandi við Al Kaida,hryðjuverkasamtökin.Hvort tveggja reyndist rangt. Það fundust engin gereyðingarvopn í Írak og Írak reyndist ekki í neinum tengslum við Al Kaida. Innrásin var því gerð á fölskum forsendum. Og þegar það kom í ljós,að engin gereyðingarvopn voru í Írak þá byrjuðu Bandaríkjamenn og fylgisveinar þeirra hér að reyna að finna nýjar ástæður fyrir innrásinni og þótti þá nærtækast að segja,að koma hafi þurft Saddam Hussein frá!
Stjórnarliðar í vandræðum
Stjórnarliðar eru í miklum vandræðum með að verja það athæfi forsætisráðherra og utanríkisráðherra að setja Ísland á lista hinna staðföstu ríkja.Þegar þeim er bent á,að ríkisstjórnin hafi aldrei samþykkt það fara þeir undan í flæmingi. Og þegar þeim er bent á, að hvorki alþingi sé utanríkismálanefnd alþingis hafi samþykkt að setja Ísland á umræddan lista svara þeir eitthvað á þessa leið: Íraksmálið var margoft rætt á alþingi og í utanríkismálanefnd. En málið snýst ekki um það hvort einhverjar umræður hafi farið fram um Írak. Málið snýst um það hvort lögleg ákvörðun hafi verið tekin í ríkisstjórn og á alþingi um að styðja innrás í Írak og setja Ísland á lista þeirra ríkja,sem studdu innrásina.Sú ákvörðun var aldrei tekin á löglegan hátt. Þess vegna er athæfi tvímenningina ólöglegt. Þeir höfðu ekkert leyfi til þess að setja Ísland á lista þeirra ríkja sem studdu innrásina.
Ábyrgð þeirra er mikil
Kjarni málsins er þessi:Það voru tveir menn sem tóku ákvörðun um stuðning Íslands við árásina á Írak,þ.e. forsætis-og utanríkisráðherra.Þeir tóku þessa ákvörðun í heimildarleysi. Þeir bera því einir ábyrgð á þessu máli. Ábyrgð þeirra er mikill.Þeir bera meðábyrgð á drápi fjölda manns í Írak, þar á meðal fjölda barna og kvenna.Allir sem lýstu yfir stuðningi við stríðið eru meðábyrgir.En talið er að alls 100 þús manns,óbreyttir borgarar, hafi látist í stríðinu
Eiga að játa mistök sín
Forsætis-og utanríkisráðherra ættu að játa mistök sín í þessu máli og biðja Íslendinga og Íraka afstökunar.Ljóst er,að þeir fengu rangar upplýsingar frá Bretum og Bandaríkjamönnum.Í janúar n.k. mun birtast auglýsing í New York Times frá Þjóðarhreyfingunni,sem nú safnar fjármunum hér á landi til stuðnings umræddri auglýsingu. Í auglýsingunni mun Þjóðarhreyfingin og þeir Íslendingar, sem að málinu standa, biðja írösku þjóðina og allan heiminn afsökunar á því, að Ísland skyldi styðja innrásina í Írak.Þetta er lofsvert framtak hjá Þjóðarhreyfingunni.Það ber að fagna því.
Björgvin Guðmundsson
Birt í Morgunblaðinu 9.jan. 2005
|