Kvótakerfið hefur nú bitnað illilega á Akureyringum. ÚA,Útgerðarfélag Akureyringa,hefur verið selt eigendum á Rifi á Snæfellsnesi. Og enda þótt nýir eigendur segist ætla að reka fyrirtækið áfram á Akureyri er engin trygging fyrir því fremur en í fyrri tilvikum,þegar skip og kvótar eru seldir burtu úr byggðarlögum. Akureyringar eru mjög óánægðir með söluna á ÚA. Þeir gerðu sér vonir um,að félög á Akureyri mundu kaupa ÚA,t.d. KEA sem hafði áhuga á kaupum. En Guðmundur Kristjánsson útgerðarmaður á Rifi o.fl. buðu betur. Það var Eimskipafélag Íslands,sem seldi ÚA en ÚA var eign Brims,sjávarútvegshluta Eimskips.
VERÐUR ÚA BÚTAÐ SUNDUR?
Kaupverð ÚA var 9 milljarðar og þar af lánaði Landsbankinn 6 milljarða. Sérfræðingar telja verðið allt of hátt og að rekstur ÚA muni ekki standa undir verðinu. Bæjarstjórinn á Akureyri,Kristján Júlíusson,kallar verðið fyrir ÚA upplausnarverð. Hann segir,að engir möguleikar séu fyrir nýja eigendur ÚA að láta rekstur félagsins standa undir verðinu. Einu möguleikar þeirra til þess að standa í skilum séu að selja eignir ÚA. Þeir muni því búta félagið í sundur og selja hluta þess til þess að geta staðið í skilum. Er bæjarstjórinn mjög áhyggjufullur vegna þessa. Talið er,að hafa þurfi 1 milljarð í hagnað eftir skatta til þess að fá viðunandi ávöxtun miðað við hið háa verð sem greitt var fyrir ÚA..
AKUREYRINGAR HÖFÐU ENGAR ÁHYGGJUR AF VESTFIRÐINGUM
Í tilefni af sölu ÚA frá Akureyri til Snæfellsness höfðu fjölmiðlar samband við Einar Odd Kristjánsson,alþingismann og varaformann fjárlaganefndar. Var hann spurður hvort hann hefði ekki áhyggjur af sölunni og þætti Landabankans í henni.Hann sagði: Landsbankinn var bara að vinna vinnuna sína. Akureyringar höfðu engar áhyggjur af Vestfirðingum,þegar Guðbjörgin var selt frá Vestfjörðum til Akureyrar. Eins og menn muna var því lofað,þegar Guðbjörgin var seld,að hún yrði áfram gerð út frá Ísafirði en það var svikið.
GALLAR KVÓTAKERFISINS KOMA FRAM
Salan á ÚA til Rifs sýnir kvótakerfið ógrímuklætt. Það eru mörg sambærileg eldri dæmi.Bent er á,að ÚA hafi áður hagað sér illa gagnvart öðrum. T.d. hafi félagið flutt aflaheimildir burt frá Hrísey og frá Ólafsvík.Þorbjörn í Grindavík flutti aflaheimildir burt frá Bakka í Bolungarvík þrátt fyrir yfirlýsingar um annað. HB á Akranesi sameinaðist Miðnesi og flutti aflaheimildirnar upp á Akranes.Árnes í Þorlákshöfn keypti á sínum tíma frystihúsið á Stokkseyri til þess að fá aflaheimildir og lofaði að reka það áfram. Það var svikið. Hér að framan var minnst á Guðbjörgina frá Ísafirði. Sala hennar til Akureyrar var mikil blóðtaka fyrir Vestfirði.Það var svikið að gera hana áfram út frá Ísafirði.Kvótar hafa verið fluttir frá mörgum byggðarlögum úti á landi vegna sölu á skipum þaðan. Þannig var t.d. um sölu frá Breiðdalsvík og frá fleiri stöðum á Austfjörðum. Það er unnt að nefna slík dæmi allt í kringum landið. Kvótakerfið hefur lagt mörg byggðarlög úti á landi í rúst. Þegar skip og kvótar eru fluttir frá byggðarlögunum er öllu fögru alltaf lofað. En síðan er það svikið.
Björgvin Guðmundsson
|