Nú er komið að athöfnum segir Afa, félag aðstandenda aldraðra. Tími orða,nefnda og skýrslna er liðinn.Undir þetta skal tekið. Það er löngu ljóst hvar skórinn kreppir að í málefnum aldraðra.Það þarf ekki að skipa fleiri nefndir til þess að finna það út.Það er þess vegna með ólíkindum,að ríkisstjórnin skyldi fyrir skömmu skipa enn eina nefndina undir forystu Ásmundar Stefánssonar til þess að fjalla um málefni aldraðra.Áður hafði átt að vera starfandi samráðsnefnd aldraðra og ríkisvaldsins um sömu málefni. Sú nefnd starfaði lítið sem ekkert. Það læðist að manni sá grunur,að tilgangur þessara nefndaskipana sé að drepa málum á dreif og tefja málin.
Hjón geti verið saman
Mikil áhersla er nú lögð á búsetumál aldraðra meðal þeirra,sem fjalla um þessi mál.Það er vel. Skortur á hjúkrunar- og dvalarheimilum fyrir aldraða er eitt stærsta vandamálið í þessum málaflokki í dag.Langir biðlistar æpa á aðgerðir.Mestur er skorturinn á hjúkrunarrými en einnig vantar þjónustuíbúðir og dvalarheimili.Það er í tísku núna að tala gegn stofnunum.Sumir segja: Við viljum ekki fleiri stofnanir fyrir aldraða heldur minni heimili og heimilislegri.Það er gott svo langt sem það nær.En það verður ekki framhjá því gengið, að þeir eldri borgarar,sem eru orðnir lasburða og veikir þurfa vistun á hjúkrunarheimilum.Það skiptir engu máli hvaða nafn við gefum þessum hjúkrunarheimilum.Þar verður að vera hjúkrun og læknisaðstoð.Það er ágætt að tengja saman hjúkrunarheimili og dvalarheimili og stuðla að því að hjón geti verið saman eða í námunda við hvort annað.
Eldri borgarar haldi fjárhagslegu sjálfstæði
Þess verður nú vart, að stjórnmálamenn reyna að slá um sig með tillögum um aðgerðir í þessum málum og sumir þeirra telja sig hafa fundið upp nýjar aðgerðir til lausnar á vandanum. Rétt er að skoða allar slíkar tillögur. Félag eldri borgara í Reykjavík hefur lagt áherslu á,að eldri borgarar sem fara á vistheimili haldi fjárhagslegu sjálfstæði sínu. Lífeyririnn sé ekki rifinn af fólkinu án þess að spyrja það, heldur fái fólkið sinn lífeyri og greiði síðan sjálft fyrir þá þjónustu sem það fær. Það þarf ekki að byggja ný heimili til þess að koma þessari breytingu á. Það er unnt að framkvæma hana strax í öllum starfandi vistheimilum aldraðra.
Kjaramálin auðveld viðfangs
Þó búsetumálin séu mikilvæg eru kjaramál aldraðra ekki síður brýn.Þau eru að því leyti til auðveldari viðfangs en búsetumálin,að unnt er að leysa þau strax. Það tekur tíma að byggja ný hjúkrunarheimili og dvalarheimili fyrir aldraða en það er unnt að hækka lífeyri aldraðra með einu pennastriki strax. Það eru nógir peningar til og því er ekki eftir neinu að bíða. Allir eru sammála um að kjör aldraðra eru óviðunandi.Stjórnmálamenn taka nú undir kröfur almennings í því efni. Helmingur ellilífeyrisþega er með ráðstöfunartekjur innan við 115 þúsund á mánuði. Það er skammarlega lágt hjá einu ríkasta þjóðfélagi heim.Einstaklingur þarf 167 þúsund á mánuði fyrir utan skatta til framfærslu samkvæmt neyslukönnun Hagstofu Íslands.Það má hækka lífeyri upp í þá upphæð í áföngum. Landssamband eldri borgara hefur krafist þess,að lífeyrir eldri borgara hækki um 17 þúsund á mánuði strax.Það væri gott skref.
Stjórnarflokkarnir hafa haft af eldri borgurum 40 milljarða sl. 11 ár miðað við þau loforð,sem gefin voru 1995.Það er kominn tími til að borga eitthvað til baka af þeirri upphæð.
Björgvin Guðmundsson
Birt í Fréttablaðinu 11.mai 2006 |