Jónas Jónsson frá Hriflu átti stóran þátt í stofnun Framsóknarflokksins árið 1916. En það sem,er þó enn merkilegra er það,að hann átti einnig jafnvel enn stærri þátt í stofnun Alþýðuflokksins sama árið Hugsun Jónasar var sú,að þessir tveir flokkar mundu vinna saman,Alþýðuflokkurinn,flokkur vinnandi fólks við sjávarsíðuna og Framsóknarflokkurinn,flokkur vinnandi fólks til sveita. Frá fyrstu tíð var samvinnustefnan eitt helsta baráttumál Framsóknarflokksins.
Stjórn vinnandi stétta
Jónas Jónsson sá fyrir sér,að vinnandi fólk til sjávar og sveita mundi stjórna Íslandi og halda íhaldinu frá völdum. Strax 1927 rættist þessi draumur Jónasar að nokkru leyti en þá myndaði Framsóknarflokkurinn ríkisstjórn með hlutleysi Alþýðuflokksins og Tryggvi Þórhallsson varð forsætisráðherra.Jónas varð sjálfur dóms-og kirkjumálaráðherra þá 42ja ára að aldri.Magnús Kristjánsson varð fjármálaráðherra. En það var ekki fyrr en 1934,að Framsóknarflokkurinn og Alþýðuflokkurinn mynduðu saman ríkisstjórn. Sú stjórn hlaut viðurnefnið stjórn hinna vinnandi stétta.Kom hún mörgum stórmerkum umbótamálum í framkvæmd,t.d. á sviði atvinnumála, í frystiiðnaði, saltsíldarframleiðslu o.fl. Einnig setti stjórnin fyrstu lögin um alþýðutryggingar( almannatryggingar).Flokkarnir hafa oft unnið saman í ríkisstjórnum síðan,t.d. í vinstri stjórninni 1956-1958 en samstarf flokkanna hefur gengið misjafnlega.Í þingkosningunum 1956 höfðu flokkarnir kosningabandalag. Draumur Jónasar frá Hriflu um náið og mikið samstarf þessara flokka hefur þó ekki rætst að fullu.
“Allt er betra en íhaldið”
Meðal forustumanna Framsóknarflokksins hafa verið margir róttækir leiðtogar,sem haldið hafa tryggð við upphaflega stefnu Framsóknarflokksins,samvinnuhugsjónina og baráttu fyrir bættum kjörum vinnandi stétta. Má þar m.a. nefna auk Jónasar, Hermann Jónasson,Eystein Jónsson og Steingrím Hermannsson. Tryggvi Þórhallsson mælti hin fleigu orð: “Allt er betra en íhaldið” og Steingrímur Hermannsson segir í ævisögu sinni,að hann hafi verið sammála þessum orðum. Hann segir í ævisögu sinni,að Hermann faðir hans hafi aldrei farið í stjórn undir forustu Sjálfstæðisflokksins og hann hafi orðið fyrir verulegum áhrifum frá föður sínum varðandi afstöðuna til Sjálfstæðisflokksins.
Á undanförnum árum hefur Framsóknarflokkurinn stöðugt verið að fjarlægjast meira upphafleg stefnumið sín. Ekki er lengur minnst á samvinnustefnuna í Framsóknarflokknum.Eftir skipbrot SÍS virðist Framsókn aðhyllast einkarekstur og hlutafélagaformið. Þetta fellur vel að stefnu Sjálfstæðisflokksins,sem alla tíð hefur lagt höfuðáherslu á einkarekstur og gróðahyggju. Framsóknarflokkurinn er einnig að breytast úr bændaflokki í þéttbýlisflokk. Það er því fátt orðið sem minnir á gamla Framsóknarflokkinn,sem Jónas frá Hriflu átti stóran þátt í að stofna.
Í herleiðingu hjá Sjálfstæðisflokknum
Framsóknarflokkurinn undir núverandi forustu vill fremur vinna með Sjálfstæðisflokknum en flokki jafnaðarmanna,Samfylkingunni.Það virðist ekki bera svo mikið á milli stefnumála Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins í dag.Báðir flokkarnir hafa lagt höfuðáherslu á einkarekstur og einkavæðingu. Báðir flokkarnir hafa lagt meiri áherslu á skattalækkanir atvinnureksturs en skattalækkanir einstaklinga eða almennings.. Báðir flokkarnir hafa látið velferðarkerfið mæta afgangi við ráðstöfun á fjármagni með þeim afleiðingum að velferðarkerfið hefur stórlega veikst, kjör aldraðra hafa versnað í samanburði við kjör láglaunafólks á almennum vinnumarkaði og aðrir hópar,sem minna mega sín,eins og öryrkjar,atvinnulausir,einstæðar mæður o.fl .hafa staðið höllum fæti í lífsbaráttunni undir stjórn þessara tveggja flokka..
Væntanlega ratar Framsóknarflokkurinn inn á rétta braut á ný,þegar herleiðingunni í vistinni hjá Sjálfstæðisflokknum lýkur. En núverandi forusta Framsóknarflokksins hugsar meira um að halda völdum en að koma fram stefnumálum samvinnu og félagshyggju.Völd, prjál og hégómi er keppikefli Framsóknar í dag.
Björgvin Guðmundsson
Birt í Morgunblaðinu 28.mai 2004 |