Í þættinum Maður á mann á Skjá 1 ræddi Sigmundur Ernir nýlega við Jón Ásgeir Jóhannesson forstjóra Baugs. Sigmundur Ernir sagði við Jón Ásgeir,að frelsi hefði verið innleitt í íslenskt viðskiptalíf og efnahagslífið hefði verið opnað og síðan spurði hann Jón Ásgeir hvort þetta væri ekki Davíð Oddssyni að þakka.Jón Ásgeir samþykkti það en bætti við,að Jón Baldvin hefði einnig átt stóran þátt í viðskiptafrelsinu.
EES-samningnum að þakka
Hér var ekki farið alls kostar rétt með. Hið sanna er,að viðskiptafrelsið er fyrst og fremst EES-samningnum að þakka. Og sá,sem átti stærsta þáttinn í því að koma EES samningnum gegnum Alþingi var Jón Baldvin Hannibalsson þá utanríkisráðherra.Sjálfstæðisflokkurinn var í fyrstu algerlega á móti aðild Íslands að EES. Alþýðuflokkurinn undir forustu Jóns Baldvins barðist hatrammlega fyrir aðild Ísland að EES og ef þeirrar baráttu hefði ekki notið við hefði Ísland ekki orðið aðili að EES.
Sjálfstæðisflokkurinn á móti útflutningsfrelsi
Áður hafði Alþýðuflokkurinn barist fyrir frjálsræði í innflutnings-og útflutningsverslun. Sjálfstæðisflokkurinn stóð gegn frjálsum útflutningi og stóð lengi vörð um einokun SÍF í saltfiskútflutningi og vildi halda helmingaskiptum milli SH og SÍS í úflutningi freðfisks. En Alþýðuflokkurinn braut þessa einokun á bak aftur.Sjálfstæðisflokkurinn hafði mjög lítið frumkvæði að frjálsræði í viðskiptalífinu. Flokkurinn drattaðist með þegar aðrir tóku forustuna.
Ungir menn þekkja ekki þessa sögu.
Björgvin Guðmundsson |