Forsetakosningar fóru fram 26.júní 2004. Ólafur Ragnar Grímsson vann glæsilegan sigur í kosningunum,fékk 85,6% greiddra,gildra atkvæða.Auðir seðlar voru 22%. Baldur Ágústsson fékk 12,3% og Ástþór Magnússon 1,9%. Sjálfstæðisflokkurinn og Morgunblaðið unnu hatrammlega gegn Ólafi í kosningunum og hvöttu fólk til þess að skila auðu. Á forsíðu Mbl. á kjördag var stór fyrirsögn,sem var vísbending til fólks um að skila auðu. Mbl. kastaði hlutleysinu í kosningabaráttunni og vann af miklum krafti gegn Ólafi. Er uppskera Sjálfstæðisflokksins og Mbl. fremur rýr.
Fylgi Ólafs meira úti á landi
Fylgi Ólafs Ragnars var meira úti á landi en í höfuðborgarsvæðinu og voru auðir seðlar einnig færri úti á landi.Frá því,að Ólafur Ragnar Grímsson,forseti Íslands, synjaði fjölmiðlafrumvarpinu staðfestingar og vísaði því í þjóðaratkvæðagreiðslu hefur Sjálfstæðisflokkurinn og Morgunblaðið rekið harðan áróður gegn Ólafi.Hefur verið reynt að gera ákvörðun forseta í þessu efni tortryggilega og jafnvel sagt,að hann hefði óeðlileg tengsl við Norðurljós og Baug. Hefur hér verið um lágkúrulegan áróður gegn Ólafi að ræða. Tóku meðframbjóðendur Ólafs að hluta undir þennan áróður í kosningabaráttunni. Er ljóst,að Morgunblaðið telur hér um baráttu upp á líf og dauða að ræða fyrir blaðið,þar eð tilkoma Fréttablaðsins hefur veikt stöðu Mbl. verulega.Fréttablaðið hefur dregið auglýsingar verulega frá Mbl. og Fréttablaðið er nú orðið stærsta blað landsins og hefur þar tekið sess Mbl. Þetta á Mbl. erfitt með að sætta sig við.Fjölmiðlalögin áttu að hnekkja veldi Norðurljósa og Fréttablaðsins og bæta stöðu Mbl. á ný. Allt bendir nú til þess að það muni mistakast. Forsetakosningarnar voru fyrsti liðurinn í mikilli baráttu um fjölmiðlafrumvarpið. Ef Morgunblaðinu hefði tekist að veikja Ólaf Ragnar forseta verulega í forsetakosningunum hefði ef til vill verið möguleiki á að fá fjölmiðlafrumvarpið samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslunni. En sterk staða Ólafs Ragnar í forsetakosningunum gerir þessar vonir Mbl. að engu.
Þjóðaratkvæðagreiðslan næst
Næsti liður í baráttunni um fjölmiðlafrumvarpið er sjálf þjóðaratkvæðagreiðslan,sem fram fer í ágúst.Miðað við þá hörðu baráttu,sem Sjálfstæðisflokkurinn og Mbl. háðu gegn Ólafi Ragnari í forsetakosningunum má búast við enn harðari baráttu fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna. Sjálfstæðisflokkurinn með stuðningi hækjunnar,Framsóknar,mun ásamt Mbl. leggja allt í sölurnar til þess að fá fjölmiðlafrumvarpið samþykkt. Þar verður ekkert til sparað í áróðrinum. En ég spái því,að þjóðin muni hafna fjölmiðlafrumvarpinu. Forsetakosningarnar gáfu vísbendingu um það.
Björgvin Guðmundsson
|