Það er nú ljóst,að Davíð Oddsson verður utanríkisráðherra 15.september n.k.Þeir Halldór munu því hafa stólaskipti.Þetta þýðir litla sem enga breytingu í utanríkismálum.Í þeim málum hefur ekki hnífurinn gengið á milli þeirra félaga. T.d. voru þeir alveg samstíga í
Íraksmálinu. Þeir studdu báðir algerlega innrás Bandaríkjanna og Breta í Írak og tóku ákvörðun um það mál án þess að leggja það fyrir ríkisstjórn eða alþingi. Skylt er að leggja öll meiriháttar utanríkismál fyrir utanríkismálanefnd alþingis. Það gerðu þeir ekki og brutu því ákvæði laga og þingskapa þar um.
Vilja báðir ríghalda í þoturnar
Í varnarmálum Íslands hafa þeir tvímenningar einnig verið algerlega sammála. Þeir hafa báðir viljað ríghalda í 4 vopnlausar herþotur og raunar viljað ríghalda í það litla sem eftir er af varnarliðinu hér enda þótt Bandaríkin telji enga þörf á varnarliði hér lengur og vilji flytja herþoturnar á brott.
Kemur Davíð í veg fyrir aðild að ESB?
Eina málið,sem þeir tvímenningar eru ekki alveg sammála um er afstaðan til Evrópusambandsins.Halldór var fremur jákvæður gagnvart Evópusambandinu en Davíð má ekki heyra það nefnt. Með Davíð sem utanríkisráðherra verður því algerlega komið í veg fyrir að Ísland gangi í ESB í bráð. Hafi Halldór haft einhverja drauma um að hann gæti þokað málum í ” rétta átt” varðandi Ísland og ESB eftir að hann væri orðinn forsætisráðherra eru þeir draumar nú orðnir að engu.Davíð mun gæta þess að Ísland haldi sig algerlega utan ESB jafnvel þó Noregur gangi inn.
Einn og einn segir þó,að Davíð gæti skipt um skoðun í þessu máli á einni nóttu og því vilji hann sjálfur vera utanríkisráðherra þegar og ef það gerist.
Björgvin Guðmundsson
"Þeir studdu báðir algerlega innrás Bandaríkjanna og Breta í Írak og tóku ákvörðun um það mál án þess að leggja það fyrir ríkisstjórn eða alþingi. Skylt er að leggja öll meiriháttar utanríkismál fyrir utanríkismálanefnd alþingis. Það gerðu þeir ekki og brutu því ákvæði laga og þingskapa þar um."
|