Það er nú komið í ljós, að viðræður Sjálfstæðisflokksins við Framsóknarflokkinn eftir kosningar voru aðeins málamyndaviðræður.Það var engin alvara í þessum viðræðum og þeim hefur greinilega aðeins verið ætlað að skapa tíma.Skýrist þá hvers vegna aldrei voru neinar fréttir af þessum viðræðum og alltaf talað í hálfkveðnum vísum um það, sem fram fór. En hvers vegna fóru þessar viðræður fram? Hvers vegna sagði ríkisstjórn Geirs Haarde ekki af sér strax eftir kosningar? Eða öllu heldur: Hvers vegna drogu ráðherrar Framsóknar sig ekki strax út úr ríkisstjórninni eftir þá útreið, sem þeir fengu í kosningunum? Það hefði verið eðlilegt. Ráðherrum Framsóknar var ekki sætt í ríkisstjórn áfram eftir hið mikla fylgistap, er þeir urðu fyrir. En þeir vildu samt vera áfram. Þeir sögðu: Til erum við, ef þið viljið okkur.Maður undrast það mjög, að Framsókn skyldi ekki hafa manndóm í sér til þess að slíta stjórninni að eigin frumkvæði eftir að kjósendur höfðu talað.
Trúnaðarbrestur milli flokkanna
Guðni Ágústsson,varaformaður Framsóknarflokksins sagði í kastljósi Sjónvarpsins 17.mai, að trúnaðarbrestur hefði orðið milli Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar. Sjálfstæðismenn hefðu verið að tala við Samfylkinguna á sama tíma og þeir hefðu verið í viðræðum við Framsókn.Hafði Guðni Ágústsson mjög sterk orð um þetta framferði Sjálfstæðismanna.
Ljóst er, að Framsókn kom í veg fyrir vinstri stjórn með því að lima sig fast við Sjálfstæðisflokkinn og telja öruggt að hún fengi áfram að vera í stjórn með Sjálfstæðisflokknum.Þegar loks áhugi vaknaði hjá Guðna Ágústssyni og Steingrími J. á vinstri stjórn sagði Ingibjörg Sólrún að það væri orðið of seint.
Þriðja tveggja flokka stjórnin með Sjálfstæðisflokknum
Þegar þetta er skrifað eru allar líkur á því, að mynduð verði ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Það þarf ekki að koma á óvart. Stór hópur manna innan Samfylkingarinnar hefur stefnt að slíku stjórnarsamstarfi. Aðrir innan Samfylkingarinnar hafa barist fyrir myndun félagshyggjustjórnar. Ég hefi verið í þeim hópi. Álýðuflokkurinn tók tvívegis þátt í tveggja flokka ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Fyrri ríkisstjórnin 1959- 1971 tókst vel. Alþýðuflokkurinn gerði það að skilyrði fyrir þátttöku í þeirri ríkisstjórn, að miklar og róttækar endurbætur yrðu gerðar á almannatryggingakerfinu og það var gert. Einnig gerði sú ríkisstjórn miklar endurbætur í efnahagsmálum. Síðari ríkisstjórn Alþýðuflokksins með Sjálfstæðisflokknum var meira stofnuð um eitt mál, þ.e. aðildina að EES samningnum en Alþýðuflokkurinn gerði aðildina að EES að skilyrði fyrir þáttöku í þeirri stjórn. Segja má,að vegna málefnanna hafi aðild Alþýðuflokksins að báðum þessum stjórnum verið vel réttlætanleg.
Endurbætur á velferðarkerfinu eru skilyrði
En þá er spurningin hvernig Samfylkingunni muni ganga að tryggja framgang mála sinna að þessu sinni.Það var aldrei meining Samfylkingarinnar að fyrsta stjórnaraðild flokksins yrði ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Samfylkingin stefndi að því að stýra ríkisstjórn án aðildar Sjálfstæðisflokksins. En það tókst ekki. En af þessum ástæðum verður mjög horft til þess hvort Samfylkingin fái nægilega mörg mál fram í hinu nýja stjórnaraamstarfi eða hvort það verða fyrst og fremst ráðherrastólarnir, sem samið verður um. Samfylkingin lagði höfuðáherslu á velferðarmálin í kosningabaráttunni, þ.e. málefni aldraðra,öryrkja,barna og heilbrigðiskerfið. Það er grundvallaratriði, að nægilegar umbætur fáist í þessum málum öllum í nýju stjórnaramsamstarfi. Einnig hefur Samfylkingin skýra stefnu í umhverfismálum, sem hún mun einnig leggja mikla áherslu á. Ég hygg, að ekki muni ganga eins vel að koma fram stefnu Samfylkingarinnar í Evrópumálum. Þar ber of mikið á milli flokkanna., .
Fróðlegt verður að sjá hverju fram vindur í viðræður Samfylkingar og Sjálfstæðisflokksins.
Björgvin Guðmundsson |