Morgunblaðið hefur undanfarin ár barist gegn ofurvaldi stórra viðskiptablokka og því, að slíkar blokkir gætu eignast allt Ísland eins og blaðið hefur orðað það. Styrmir Gunnarsson,ritstjóri Mbl. tók undir þennan málflutning í viðtali í kastljósi sjónvarpsins 26.nóvember sl. Morgunblaðið hefur gagnrýnt áhugaleysi stjórnmálaflokkanna um þetta mál og undrast, að stjórnmálamenn skuli ekkert vilja gera í þessu máli.En er eitthvað unnt að gera?
Hvaða ráðstafanir er unnt að gera til þess að sporna við þeirri þróun,sem Mbl. hefur svo miklar áhyggjur af?
Verðum að hlýta samkeppnisreglum EES
Það er nýlega búið að setja ný samkeppnislög og koma á fót nýrri stofnun,samkepniseftirliti,sem hafa á eftirlit með skaðlegum samkeppnishömlum.Þessi stofnun á að geta gripið inn í ef markaðshlutdeild fyrirtækja verður of mikil og ef um skaðlegar samkeppnishömlur er að ræða eða ólögmætt samráð fyrirtækja um verð og viðskiptaskilmála. Íslensku lögin eru svipuð og norræn lög um sama efni og þau eru í samræmi við samkeppnislög hjá Evrópusambandinu enda er Ísland aðili að Evrópska efnahagssvæðinu og hluti af hinum innri markaði EES. Ísland verður að hlýta samkeppnisreglum EES og getur ekki sett allt aðrar reglur eða lög um þau efni en þar gilda.
Getum eflt samkeppniseftirlitið
Ég er sammmála Styrmi Gunnarsssyni um það, að ekki er æskilegt að nokkrar stórar viðskiptablokkir verði of valdamiklar á Íslandi eða að þær eignist of mikið á Íslandi. En að mínu mati er ekki unnt að koma í veg fyrir slíka þróun nema með almennum reglum eins og felast í samkepnnislögum. Við getum ekki sétt sértæk lög um þetta efni til þess að koma í veg fyrir of mikil völd eða áhrif einstakra fyrirtækja. En við getum eflt samkeppniseftirlitið,. veitt meira fjármagni til þeirrar stofnunar til þess efla hana og búa nægilega mörgum starfskröftum svo hún geti rækt hlutverk sitt vel. Stofnunin var efld nokkuð með síðustu lögum en ekki nóg. Í því efni þarf að gera enn betur. Mestu máli skiptir þó framkvæmd laganna. Samkeppniseftirlitið þarf að fylgjast vel með þróun fyrirtækja og grípa hiklaust inn í ef um skaðlegar samkeppnishomlur er að ræða eða óeðelilegan samruna eða samráð, sem getur hindrað eðilega samkeppni. Þetta er erfitt verkefni en það verður að vinna.
Gera má lögin skýrari
Nýju samkeppnislögin frá 2005 voru unnin af nefnd undir forsæti háskólakennara. Þó ýmsar umbætur felist í lögunum tel ég þau ekki nógu skýr.T.d tel ég ákvæðin um markaðsráðandi fyrirtæki og skaðlegar samkeppnishömlur vera of óljós og ekki gefa samkeppnisyfirvöldum nægilegar vísbendingar um það hvenær á að grípa til aðgerða. Ég tel æskilegt, að lögin yrðu að þessu leyti gerð skýrari. Mestu máli skiptir þó framkvæmdin og öflugt eftirlit. Það skiptir engu máli þó lögin séu góð ef framkvæmdin er slöpp.
Getum ekki bannað fyrirtækjum að stækka
Það baráttumál Mbl. að koma í veg fyrir ofurvald stórfyrirtækja er mjög erfitt viðureignar. Við getum ekki bannað fyrirtækjum að stækka og eflast.Við getum bannað skaðlegar samkeppnishömlur slíkra fyrirtæklja og við getum bannað samruna og samráð sem takmarkar samkeppni en ef þessi stóru fyrirtæki fylgja settum lögum og reglum getum við ekki bannað þeim að stækka og blómstra.
Björgvin Guðmundsson
Birt í Morgunblaðinu 28.nóvember 2006
|