Umræður fóru fram utan dagskrár á alþingi 28.janúar 2004 um stríðið í Írak og stuðning Íslands við það. Guðmundur Árni Stefánsson,alþingismaður Samfylkingarinnar hóf umræðuna. Kvað hann nú komið í ljós,að engin gereyðingarvopn væru í Írak og allt benti til þess að engin gereyðingarvopn eða efnavopn hefðu verið til staðar í Írak,þegar Bandaríkin og Bretar hófu innrás í landið. Styrjöldin við Írak hefði því verið háð á fölskum forsendum. Gagnrýndi Guðmundur Árni harðlega,að ríkisstjórn Íslands skyldi lýsa yfir stuðningi við styrjöldina gegn Írak.
RÍKISSTJÓRNIN BIÐJIST AFSÖKUNAR
Guðmundur Árni sagði, að ríkissstjórnin ætti að biðjast afsökunar á mistökum sínum í þessu efni. Steingrímur J. Sigfússon,alþingismaður,formaður VG, sagði,að ríkisstjórin ætti að taka Ísland af lista hinna staðfestu ríkja,sem lýst hefðu stuðningi við stríðið. Utanríkisráðherra svaraði og lamdi hausnum við steininn. Hann viðurkenndi að vísu að ástandið í Írak hefði verið ýkt en sagði,að samt hefði verið full ástæða til þess að koma Saddam Hussein frá og fara í stríð þess vegna.Er ráðherrann kaþólskari en páfinn í þessu efni,þar eð Bandaríkin hafa dregið meira í land í málinu að undanförnu en Halldór. Powell,utanríkisráðherra Bandaríkjanna viðurkennir nú,að engin gereyðingarvopn séu í Írak og fyrrverandi yfirmaður vopnaleitar Bandaríkjamanna í Írak,Keys,segir,að engin gereyðingarvopn séu í Írak og hafi ekki verið þar frá Persaflóastríðinu.
BROT Á ALÞJÓÐALÖGUM
Steingrímur J.Sigfússon benti á það í sjónvarpsþættinum,Ísland í dag,á Stöð 2 í gærkveldi,að ekki væri heimilt samkvæmt alþjóðalögum að fara í stríð gegn öðru ríki til þess að að koma valdhöfum viðkomandi ríkis frá. Það hefði einungis verið löglegt að fara í stríð gegn Írak til þess að uppræta þar gereyðingarvopn,ef þau hefðu verið til staðar. En auk þess var það aldrei samþykkt í Öryggisráði Sþ. að fara í stríð við Írak.
Það er því ljóst,að það var brot á alþjóðalögum að fara í stríð við Írak og íslenska ríkisstjórnin braut landslög með því að ákveða að styðja stríð gegn Írak án þess að leggja það mál fyrir utanríkismálanefnd og alþingi.
Björgvin Guðmundsson
|