Nýr meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar hefur nú tekið við í Reykjavík. Íhaldið fékk bæði borgarstjórann og forseta borgarstjórnar en það eru tvö aðalembætti borgarstjórnar.Framsókn fær fundarstjóra borgarráðs! Ljóst er að í þessu efni hefur Framsókn samið af sér. Auðvitað hefði Framsókn átt að fá forseta borgarstjórnar úr því Sjálfstæðisflokkurinn fékk borgarstjórann.
Löngusker gleymd
Stærsta kosningaloforð Framsóknar var að flytja ætti Reykjavíkurflugvöll á Löngusker í Skerjafirði. Segja má, að Framsókn hafi keyrt mestalla kosningabaráttuna á þessu loforði. Ekkert er minnst á Löngusker í nýjum málefnasamningi meirihlutans. Það loforð virðist gleymt. Það eina sem er sagt er, að ákveða eigi á kjörtímabilinu staðsetningu flugvallarins.Það er lítið annað en R-listinn hafði ákveðið. Annað stórt kosningaloforð Framsóknar var, að öll ungmenni ættu að fá 40 þúsund. króna frístundakort til þess að auðvelda þeim að stunda íþróttir og aðrar tómstundir.Þetta loforð virðist einnig hafa dottið upp fyrir í óðagoti Framsóknar við að komast upp í hjá íhaldinu.Nú er aðeins talað um að ræða eigi við íþróttafélögin um þetta mál og gefa út frístundakort síðar en engin upphæð er nefnd.
Skreyta sig með fjöðrum R-listans
Eitt stærsta málið í kosningunum voru málefni aldraðra.Mjög er loðið það sem nýi meirihlutinn segist ætla að gera í þeim málaflokki.Það, sem brennur heitast á öldruðum í Reykjavík, er skortur á hjúkrunarrými.Varðandi þau mál er lítið bitastætt að finna hjá nýja meirihlutanum. Nýi borgarstjórinn minntist á hjúkrunarheimili,sem R-listinn hafði sett í gang svo sem á Lýsisreitnum. En ekki dugar að skreyta sig með fjöðrum frá R-listanum.Fleira verður að koma til. Nýi meirihlutinn talar einnig um að hefja undirbúning að byggingu íbúða fyrir aldraða. Það er gott svo langt sem það nær en hjúkrunarheimilin eru mikilvægari að mínu mati. Þar er þörfin brýnust.
Framsókn svíkur kosningaloforð
Framsókn lofaði gjaldfrjálsum leikskóla en það loforð verður svikið. Í staðinn er talað um að lækka leikskólagjöld um 25%! R-listinn hafði þegar byrjað að lækka leikskólagjöld og Samfylkingin og Vinstri græn boðuðu gjaldfrjálsan leikskóla.Miklu skiptir að
halda leikskólunum snuðrulaust gangandi,tryggja starfsfólk og greiða því mannsæmandi laun. Undir forustu Steinunnar Valdísar borgarstjóra R-listans voru laun starfsfólks á leikskólum hækkuð og með því tókst að tryggja rekstur leikskólanna en áður voru þeir við það að stöðvast.Margir íhaldsmenn gagnrýndu þessa ráðstöfun R-listans.
Launaútgjöldin gagnrýnd
Sjálfstæðisflokkurinn er nú byrjaður að hnýta í R-listann fyrir fjármálastöðu borgarinnar en ekki var minnst á þau mál í kosningabaráttunni.Segir Sjálfstæðisflokkurinn,að nýir launasamningar hafi kostað meira en talið var og sagt áður.Mjög er þó óljóst það sem Sjálfstæðisflokkurinn segir í þessu efni.Það er ekkert nýtt, að nýir launasamningar kosti meira en áætlað er.Bæði ríki og sveitarfélög hafa fundið fyrir því. En ljóst er, að nýi meirihlutinn er að búa Reykvíkinga undir að fallið verði frá fleiri kosningaloforðum en þegar er komið í ljós.
Þegar íhaldið missti meirihlutann í Reykjavík 1978 var ástandið í fjármálum borgarinnar svo slæmt eftir meira en hálfrar aldar valdatímabil Sjálfstæðisflokksins,að ekki var unnt að borga út laun borgarstarfsmanna nema með sérstökum ráðstöfunum.
Íhaldið fær Orkuveitina
Framsókn hefur afhent íhaldinu forustu Orkuveitunnar fyrstu tvö árin. Er það athyglisvert, þar eð árásir íhaldsins á Framsókn ( Alfreð Þorsteinsson) vegna Orkuveitunnar voru mjög hatrammar. Var í því sambandi talað um óráðsíu og ævintýrafjárfestingar.Nú er sá,sem stóð fyrir árásunum á Framsókn, gerður að formanni Orkuveitunnar! Hefur hann þegar gefið í skyn,að risarækjueldi Orkuveitunnar verði slegið af. Er ljóst,að borgarfulltrúi Framsóknar lætur allt yfir sig ganga aðeins, ef hann fær að tilheyra meirihlutanum.
Björgvin Guðmundsson
fyrrverandi borgarfulltrúi
Birt í Fréttablaðinu 23.júní 2006