Halldór Ásgrímsson tilkynnti á Þingvöllum 5.júní sl., að hann hefði ákveðið að segja af sér sem forsætisráðherra.Jafnframt kom fram, að hann mundi láta af störfum formanns Framsóknarflokksins á flokksþingi á þessu ári.
Ráðagerðir fóru út um þúfur
Ráðgert hafði verið, að formaður og varaformaður Framsóknar mundu láta af forustu Framsóknar strax og Finnur Íngólfsson taka við formennsku í flokknum og embætti fjármálaráðherra.Þessar ráðagerðir fóru út um þúfur. Ekki var samstaða um þær í flokknum.Halldór Ásgrímsson frestaði því afsögn sinni sem formaður til næsta flokksþings.
Virðingarvert hjá Halldóri
Halldór Ásgrímsson sagði á Þingvöllum, að hann væri að axla ábyrgð vegna stöðu Framsóknarflokksins eftir sveitarstjórnarkosningarnar.Það er virðingarvert, að Halldór skuli bregðast við úrslitum sveitarstjórnarkosninganna með afsögn sinni.Það er nýtt í íslenskum stjórnmálum, að slíkt sé gert. Að vísu hefur Halldór sjálfsagt verið farinn að hugleiða afsögn án tillits til úrslita síðustu kosninga.Hann er búinn að vera lengi í pólitík og það er erfitt starf að vera stjórnmálamaður.
Dugar ekki til að rétta flokkinn við
Hins vegar er spurning hvort það dugar til þess að rétta Framsókn við, að skipta um mann í brúnni.Tökum dæmi: Ef Finnur Ingólfsson tekur við formennsku verður ekki mikil stefnubreyting. Stefna Halldórs og Finns í þjóðmálum er mjög svipuð. Þeir eru báðir hægri sinnaðir. Halldór hefur fært flokkinn til hægri og Finnur er áreiðanlega sammála stefnumótun Halldórs. Guðni Ágústsson er hins vegar fulltrúi róttækari arms flokksins og því gæti hann færst flokkinn örlítið til vinstri.
Metur völdin meira en hugsjónir
Það er áreiðanlegt, að fylgishrun Framsóknar hefur átt sér stað fyrst og fremst vegna samvinnunnar við Sjálfstæðisflokkinn. Framsókn hefur stutt stefnu Sjálfstæðisflokksins að mestu leyti og á meðan ekki verður breyting þar á eykst ekki fylgi Framsóknar á ný. Framsókn hefur metið völdin meira en gamlar hugsjónir Framsóknar um samvinnustefnu og félagshyggju.
Með íhaldinu í borgarstjórn
Þetta kom vel í ljós við stjórnarmyndun eftir síðustu þingkosningar og við myndun meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur.Í borgarstjórn ákvað Framsóknarflokkurinn að mynda meirihluta með Sjálfstæðisflokknum áður en nokkuð var farið að ræða málefni.Það var einungis hugsað um völdin. Það dugði Framsókn að fá formennsku í borgarráði. Flokkurinn hugsaði ekkert um að viðhalda samstarfi R-listaflokkanna,sem höfðu unnið saman í 12 ár með góðum árangri.
Best að rjúfa stjórnina
Erfitt er að sjá, að Framsókn rétti við í óbreyttu samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn.Besta leiðin til þess að bæta hag Framsóknar er að rjúfa stjórnarsamstarfið. Kjósendur hafa sent Framsókn skýran boðskap um að þeir vilji breytta stefnu.Annar hver kjósandi yfirgaf Framsókn í sveitarstjórnarkosningunum. Túlka má þennan boðskap sem svo, að kjósendur vilji að Framsókn rjúfi stjórnina. Framsókn ætti að taka mark á boðskap kjósenda.
Björgvin Guðmundsson
. |