Hjálmar Árnason,formaður þingflokks Framsóknarflokksins sagði í Silfri Egils sunnudaginn 28.nóvember,að til greina kæmi að Ísland endurskoðaði stefnuna í Íraksmálinu. Ísland hefði fengið rangar upplýsingar áður en innrásin var gerð.Egill Helgason gekk á Hjálmar og spurði hvort taka ætti Ísland af lista hinna staðföstu ríkja. Hjálmar hikaði í fyrstu.En þegar Egill gekk á hann á ný svaraði Hjálmar: Svar mitt er já.Mér finnst það koma til greina.
Hann fékk bágt fyrir hjá forustumönnum ríkisstjórnarinnar,forsætis-og utanríkisráðherra. Hjálmar byrjaði því að draga í land og sagði,að orð sín hefðu verið oftúlkuð!
Það var mikil bjartrýni hjá Hjálmari að halda að menn mættu hafa sjálfstæða skoðun í Framsóknarflokknum. Spurningin er nú þessi:Verður Hjálmari vikið úr nefndum þingsins fyrir að óhlýðnast foringjanum! Það varð hlutskipti Kristin Gunnarssonar fyrir sömu sakir.Og í því máli var það einmitt Hjálmar,sem var látinn framkvæma óhreinu verkin gagnvart Kristni.
Á alþingi er nú til meðferðar tillaga frá öllum stjórnarandstöðuflokkunum um að rannsakað verði hvernig sú ákvörðun var tekin að láta Ísland lýsa yfir stuðningi við árás á Írak.Einnig hefur Steingrímur J. Sigfússson óskað eftir því ,að lögð verði fram í utanríkismálanefnd þau gögn er ráðherrar höfðu undir höndum þegar þeir tóku umrædda ákvörðun.
Valgerður Bjarnadóttir viðskiptafræðingur og pistlahöfundur í Fréttablaðinu sagði í Silfri Egils nýlega að “ tveir karlar” hefðu ákveðið upp á sitt eindæmi að breyta utanríkisstefnu Íslands og láta Ísland samþykkja árás á annað ríki! Þar átti hún við forsætis-og utanríkisráðherra. En eins og margoft hefur komið fram var það hvorki lagt fyrir ríkisstjórn né alþingi, eða utanríkismálanefnd að taka ákvörðun um árás á Írak.Í umræddum þætti sagði Valgerður,að það hefði verið tekið skýrt fram,þegar Ísland gekk í NATO,að Ísland hefði engan her og ætlaði ekki að stofna her og mundi ekki fara með ófriði á hendur neinni annarri þjóð. Sérstaða Íslands í þessu efni hefði verið viðurkennd.Sérstaða Íslands var einnig viðurkennd,þegar Íslands gerðist aðili að Sameinuðu þjóðunum. Það hefði að sjálfsögðu átt að ræða það á alþingi hvort breyta ætti utanríkisstefnu Íslands í þessu efni.Raunar er skylt að leggja öll mikilvæg utanríkismálefni fyrir utanríkismálanefnd. Þannig,að þegar forsætisráðherra og utanríkisráðherra ákváðu að sniðganga utanríkismálanefnd í þessu stóra máli voru þeir að brjóta lög og þingsköp alþingis. Mörður Árnason sagði á alþingi fyrir fáum dögum að forsætisráðherra ætti að segja af sér af þessum sökum. Vissulega er það rétt. Hér voru framin alvarleg afglöp í starfi.
Þjóðarhreyfingin hefur nú ákveðið að birta auglýsingu í stórblaðinu New York Times til þess að biðjast afsökunar á því fyrir hönd íslensku þjóðarinnar að Ísland skuli hafa lýst stuðningi við árásina á Írak. Er nú hafin fjársöfnun til þess að kosta birtingu umræddrar auglýsingar en hún mun kosta um 3 millj. kr. Hér er um athyglisvert framtak að ræða og ber að fagna því. Þess er ekki að vænta,að ráðmenn þjóðarinnar striki Ísland af lista hinna staðföstu þjóða í bráð og á meðan þess er beðið er það gott úrræði að birta auglýsingu í New York Times og biðja þjóðir heims afsökunar á því að Íslendingar,sem ætíð hafa verið friðelskandi þjóð, skuli hafa stutt stríðið í Írak En krafan er samt semn áður sú,að Ísland verði strikað út af lista hinna staðföstu þjóða,sem studdu stríðið. Það er smánarblettur á þjóðinni að Ísland skuli vera á listanum.
Björgvin Guðmundsson
Birt í Fréttablaðinu 9.des. 2004