Mikill ágreiningur er innan stjórnarflokkanna um það hvort Ísland eigi að leita eftir sæti í Öryggisráði Sþ. eða ekki.Harðasti andstæðingur framboðs Íslands til Öryggisráðsins er Einar Oddur Kristjánsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins og varaformaður fjárlaganefndar.Hann er þekktur fyrir að taka einarða afstöðu í málum og er óhræddur við að segja skoðanir sínar hvort sem þær falla í kramið hjá flokksforingjunum eða ekki. Formaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi utanríkisráðherra hefur einnig verið gagnrýninn á framboð Íslands til Öryggisráðsins vegna mikils kostnaður við framboðið. Talið er að kostnaðurinn verði á bilinu 600-1200 millj.kr. Búist var við því,að fyrrverandi utanríkisráðherra,Davíð Oddsson, mundi falla frá framboði Íslands til Öryggisráðs Sþ. En svo varð ekki.Hann ákvað að láta eftirmann sinn um málið.
Guðni: Málið í uppnámi
En á meðan málið var í algerri óvissu vegna ágreinings innan stjórnarflokkanna fór forsætisráðherra vestur um haf og flutti ræðu á leiðtogafundi á vegum Sameinuðu þjóðanna í New York.Það kom öllum á óvart, að þar lýsti forsætisráðherra því yfir,að Ísland sæktist eftir sæti í Öryggisráði Sþ. Varaformanni Framsóknarflokksins og formanni þingflokks Framsóknarflokksins brá mjög við þessi tíðindi. Guðni Ágústsson varaformaður Framsóknarflokksins sagði í viðtali við Sjónvarpið, að mál þetta væri í uppnámi.Og Hjálmar Árnason formaður þingflokks Framsóknarflokksins sagði,að málið væri óafgreitt í þingflokki Framsóknarflokksins. Í kjölfar þessara yfirlýsinga birtist leiðari í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni: Uppreisn í Framsóknarflokknum. Það er ekki á hverjum degi sem Morgunblaðið skrifar þannig um Framsókn. En Mbl. benti á,að þetta væri í fyrsta sinn,sem formaður Framsóknarflokksins hefði ekki stjórn á sínu liði. Ljóst er,að ýmsum þingmönnum Framsóknarflokksins þykir mælirinn fullur.Ekkert samráð er haft við þingflokkinn. Formaður Framsóknarflokksins ákvað einn ásamt þáverandi forsætisráðherra að láta Ísland lýsa yfir stuðningi við innrás í Írak.Málið var ekki lagt fyrir þingflokk Framsóknarflokksins. Og nú ákvað formaður Framsóknar einn, að halda fast við það,að Ísland ætti að sækjast eftir sæti í Öryggisráðinu. Það var ekki lagt fyrir þingflokk Framsóknar.
Einræðislegir stjórnarhættir
Formaður Framsóknar viðhefur hér sömu stjórnarhætti og formaður Sjálfstæðisflokksins hefur viðhaft undanfarin ár,þ.e. einræði. Ekkert samráð er haft við þingflokkinn fyrr en eftir á. Þetta gerðist einnig þegar Símapeningunum var ráðstafað. Þar var þinginu gefið langt nef. Án þess að bera það undir Alþingi var tilkynnt hvernig ráðstafa ætti 167 milljörðum kr. Þetta hefði hvergi getað gerst í siðmenntuðu landi nema á Íslandi. Í öllum vestrænum löndum hefði slíkt mál fyrst verið lagt fyrir þjóðþingið. Ljóst er,að mælirinn er fullur. Þingmönnum finnst sem þeir séu hundsaðir í hverju málinu á fætur öðru.
Mörgum finnst,sem kostnaður við framboð Íslands til Öryggisráðs Sþ. sé allt of hár. Sáralitlir möguleikar eru á,að Ísland nái kosningu og þá er þessum peningum á glæ kastað þó einhver muni segja,að Ísland fái góða kynningu á erlendum vettvangi. En svo mörg brýn úrlausnarefni bíða hér innan lands,að nær er að nota þessa fjármuni í þau.
Björgvin Guðmundsson