Samfylkingin hefur nú verið í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum í tæpt eitt ár.Það er því komin nokkur reynsla af þeirri stjórnarsetu.Hvernig hefur tekist til? Nokkuð hefur
áunnist en hvergi nærri nóg. Ég mun nú gera nokkra úttekt á stjórnarsetu Samfylkingarinnar..
Nokkur árangur hefur náðst í velferðarmálum,sem heyra undir ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttir.Má þar nefna aðgeröaráætlun í málum barna og ungmenna, ráðstafanir í húsnæðismálum, aðgerðir í þágu geðfatlaðra, minni tekjutengingar lífeyris aldraðra og öryrkja og afnám skerðingar lifeyris vegna tekna maka. Enn vantar þó að framkvæma stærsta mál lifeyrisþega, þ.e. hækkun lífeyris þannig að hann dugi fyrir framfærslukostnaði samkvæmt könnun Hagstofu Íslands um neysluútgjöld. Það mál var eitt stærsta kosningaloforð Samfylkingarinnar og mér finnst það nokkuð mikill dráttur á efndum þess að draga það í heilt ár og sennilega rúmlega það.Tillaga Sjálfstæðisflokksins um að láta þá,sem ekki hafa neitt úr lífeyrissjóði fá 25 þús kr. brútto lífeyri hrekkur skammt í því efni.Eftir skatta og skerðingar verða um 8 þús. kr. eftir af þeim 25 þús. krónum.Það er að vísu betra en ekkert fyrir þá,sem ekkert fá í dag úr lífeyrissjóði en það er lítill hópur sem fær þessa greiðslu Kosningaloforð Samfylkingarinnar var hins vegar um almenna hækkun lífeyris frá TR til allra.Mér segir svo hugur,að þessar 25 þús. kr. hafi tafið framkvæmd á kosningaloforði Samfylkingarinnar..
Í stjórnarsáttmálanum segir,að bæta eigi stöðu aldraðra og öryrkja og einfalda almannatryggingakerfið. Þetta ákvæði hefði mátt vera ítarlegra svo það hefði legið betur fyrir hvernig ætti að bæta kjör lífeyrisþega og hvað mikið. Með því að orða ákvæðið í stjórnarsáttmálanum óljóst verður stöðugur reipdráttur um það milli stjórnarflokkanna hvað bæta eigi kjör lífeyrisþega mikið.
Í stjórnarsáttmálanum er einnig minnst a skattamál. Þar segir að skattar einstaklinga og fyrirtækja verði lækkaðir. Í tengslum við nýgerða kjarasamninga var ákveðið að hækka skattleysismörkin og lækka skatta fyrirtækja. Skattleysismörkin verða hækkuð um 20 þúsund krónur á mánuði á 3 árum og hefst sú skattabreyting næsta ár. Á næsta ári hækka skattleysismörkin um 5800 kr. á mánuði.Þetta er lítið skref skattalækkunar. Samfylkingin setti fram það stefnumál fyrir síðustu kosningar,að skattleysismörkin ættu að fylgja launavísitölu. Ef skattleysismörkin hefðu hækkað í samræmi við hækkun launavístölu frá 1988 væru þau í dag 150 þúsund kr. á mánuði.En þau verða 115-120 þúsund krónur á mánuði eftir 3 ár.Það vantar því mikið upp á að stefnumarki Samfylkingarinnar sé náð. Tekjuskattur fyrirtækja verður lækkaður úr 18%
i 15% strax á næsta ári. Þar er betur að málum staðið en að því,er varðar skattalækkanir einstaklinga.
Samfylkingin lagði mikla áherslu á umhverfismál í síðustu kosningum.Hún vildi kortleggja hvar mætti virkja og hvar ætti að vernda náttúruna og hún vildi fresta frekari stóriðju.Þegar hefur verið ákveðið að vernda vissa staði og viss svæði og ekki er á döfinn að virkja neina stórfossa a næstunni.Erfiðara hefur hins vegar reynst að stöðva þá stóriðju,sem var í pípunum. Ný álverksmiðja í Helguvík er komin lengst að því er undirbúning varðar. Skipulagsstofnun hafði framkvæmt umhverfismat en það var kært til umhverfisráðherra. Ráðherra taldi ekki lagastoð til þess að fella matið úr gildi og með því að matið var jákvætt framkvæmdum þýðir það að grænt ljós hefur verið gefið á framkvæmdir. Framkvæmdaleyfi er í höndum sveitarfélaga. Völd umhverfisráðherra við ákvörðun um nýja stóriððju eru orðin harla lítil.Umhverfisráðherra virtist andvígur álveri við Helguvík en gat ekkert gert. Hvort ríkisstjórn getur haft óbein áhrif
á ákvarðanir um nýja stóriðju kann vel að vera.En svo virðist sem ríkisstjórnin hafi lítinn áhuga á því.
Samfylkingin lagði eitt stærsta baráttumál sitt,kvótamálið,til hliðar í síðustu alþingiskosningum.Margir telja,að það hafi verið gert til þess að greiða fyrir stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn.Ef það er rétt hefði Samfylkingin átt að vera því harðari í öðrum baráttumálum sínum eins og velferðarmálum og skattamálum.En svo var ekki. Ákvæðin um þessi mál í stjórnarsáttmálanum eru ekki nógu skýr. Ég er mjög óánægður með það, að Samfylkingin skuli hafa lagt kvótamálið til hliðar. Þetta er eitt stærsta og mikilvægasta baráttumál jafnaðarmanna í dag. Það verður að stokka kvótakerfið upp, draga veiðiheimildir inn á ákveðnu tímabili og bjóða aflaheimildir upp eða úthluta þeim á ný gegn greiðslu.Kvótakerfið hefur skapað gífurlegt misrétti í þjóðfélaginu. Margir hafa fengið úthlutað frítt miklum verðmætum,sem þeir hafa síðan selt og braskað með eins og þeir ættu veiðiheimildirnar. þó svo sé ekki.Jafnaðarmenn munu ekki hætta baráttunni fyrr en misrétti kvótakerfisins hefur verið leitrétt.
Björgvin Guðmundsson
Birt í Fréttablaðinu 28.apríl 2008
|