Stjórnmálamenn og sérfræðingar í stjórnmálum hafa undanfarið verið að túlka úrslit sveitarstjórnarkosninganna.Ekki eru menn alveg á eitt sáttir um úrslitin. Menn eru þó sammála um það,að kosningarnar hafi verið mikið áfall fyrir Framsóknarflokkinn. Fylgið bókstaflega hrundi af Framsókn í kosningunum. Flokkurinn fékk 11,8 % miðað við 22,9 % í sveitarstjórnarkosningunum fyrir 4 árum. Ljóst er,að kjósendur voru að refsa Framsóknarflokknum fyrir þjónkun við íhaldsstefnu ríkisstjórnarinnar í rúman áratug. Það var ekki verið að refsa sveitarstjórnarmönnum Framsóknar.Þeir hafa ekki staðið sig verr en aðrir sveitarstjórnarmenn.
Forustan lemur hausnum við steininn
Þrátt fyrir afhroð í nýafstöðnum kosningum lemur forusta Framsóknar hausnum við steininn og segir,að úrslitin hafi engin áhrif á stjórnarsamstarfið! Það er engu líkara en Framsókn ætli að fremja sjálfsmorð. Flokkurinn virðist ætla að ganga út í opinn dauðann.Það eina,sem gæti bjargað Framsóknarflokknum nú er að flokkurinn sliti stjórnarsamstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn strax eða næsta haust. Það eru næg ágreiningsefni. Framsókn gæti slitið stjórninni vegna aðfarar Sjálfstæðisflokksins að Íbúðalánasjóði en íbúðalánin voru stærsta mál Framsóknar í síðustu þingkosningum.Boðskapur kjósenda til forustu Framsóknar í nýafstöðnum kosningum var alveg skýr:Hingað og ekki lengra.Ekki frekari þjónkun við íhaldið. Um leið og Framsókn sýnir,að hún ætli að breyta um stefnu og hætta að láta íhaldið valta yfir sig fá fyrri kjósendur Framsóknar traust á flokknum á ný.Sú hætta er að vísu fyrir Framsókn,að efnt verði til nýrra kosninga, ef Framsókn slítur stjórninni en forsætisráðherra er með þingrofsvaldið og getur ráðið því hvort þing verður rofið. Auðvitað þorir Framsókn ekki í kosningar næsta haust.Hún þarf tíma til næsta vors til þess að undirbúa kosningar. Það væri því betra fyrir Framsókn að leyfa nýrri stjórn að taka við fram að kosningum.
Samfylkingin hélt sjó
Hvernig fóru aðrir flokkar út úr sveitarstjórnarkosningunum? Samfylkingin hélt sjó. Hún fékk svipað fylgi og í síðustu þingkosningum en aðeins minna en í sveitarstjórnarkosningunum fyrir 4 árum. Flokkurinn fékk nú 30% en í þingkosningunum fékk flokkurinn 30,95% og í sveitarstjórnarkosningunum fyrir 4 árum fékk flokkurinn 31,4%.Kosningaúrslitin í Reykjavík voru flokknum nokkur vonbrigði. Þar fékk flokkurinn 27,3 % og 4 borgarfulltrúa. Það er að vísu sama tala borgarfulltrúa og flokkurinn hafði í R-listanum. En flokkurinn hafði vonast til að fá 5 borgarfulltrúa.Það er ljóst,að flokkurinn fékk talsvert minna fylgi en flokkurinn fékk í Reykjavík í þingkosningunum.Hver er ástæðan? Er saga Alþýðuflokksins hér að endurtaka sig? Alþýðuflokkurinn fékk alltaf minna fylgi í borgarstjórnarkosningum en í þingkosningum í Reykjavík.Ástæðan var sú,að ákveðinn hópur Alþýðuflokksmanna kaus alltaf Sjálfstæðisflokkinn í borgarstjórnarkosningum. Vonandi er ekki einhver hópur Samfylkingarmanna að kjósa Sjálfstæðisflokkinn í borgarstjórnarkosningum.
Sjálfstæðisflokkurinn tók að vísu upp stefnu Samfylkingarinnar í mörgum málum í kosningunum.Og nokkrir fyrrverandi Alþýðuflokksmenn,sem kölluðu sig hægri krata, voru með mikinn áróður gegn Samfylkingunni og Ingibjörgu Sólrúnu og reyndu að skapa óánægju með Samfylkinguna. Þessi áróður var áberandi í Blaðinu. Þar var í raun um óbeinan áróður að ræða fyrir því að kjósa Sjálfstæðisflokkinn.
Stjórnarandstaðan í landsmálum kom vel út
Sjálfstæðisflokkurinn getur unað vel við úrslit sveitarstjórnarkosninganna.Flokkurinn fékk 41,6% miðað við 40,7% fyrir 4 árum.Í síðustu þingkosningum fékk Sjálfstæðisflokkurinn aðeins 33,68%. Það var mikið áfall fyrir Sjálfstæðisflokkinn.
Vinstri græn og Frjálslyndir geta verið ánægð með kosningaúrslitin. Þessir flokkar unnu báðir á en þó einkum Vinstri græn. Segja má,að stjórnarandstaðan í landsmálum hafi komið vel út úr kosningunum og fengið aukið fylgi. Það lofar góðu fyrir væntanlegar þingkosningar.
Björgvin Guðmundsson
Fjölmiðlar skýra frá því að Halldór Ásgrímsson sé að íhuga að láta af embætti flokksformanns og forsætisráðherra vegna úrslita sveitarstjórnarkosninganna.Verði málið tekið fyrir á væntanlegum miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins. Ef af þessu verði muni Finnur Ingólfsson hugsanlega taka við formennsku í flokknum til bráðabirgða,a.m.k. Geir Haarde mundi þá taka við embætti forsætisráðherra og Framsókn fá embætti fjármálaráðherra.
Birt í Fréttablaðinu 30.mai 2006