Vísir.is birtir eftrifarandi frétt 25.september:
Rúmlega 25 prósent manns á aldrinum 18 til 85 ára segja líklegt að þau myndu kjósa framboð eldri borgara ef það væri í boði við alþingiskosningar í dag. Þetta kemur fram í könnun sem Capacent Gallup gerði dagana 31. ágúst til 13. september. Tæp 70 prósent svöruðu því til að ólíklegt væri að það myndi kjósa slíkt framboð og tæp fimm prósent tóku ekki afstöðu.
Afstaða fólks var skoðuð út frá nokkrum þáttum. Fleiri konur en karlar sögðu líklegt að þær myndu kjósa framboð eldri borgara; rúm 30 prósent á móti tæpum 20 prósentum karla. Því eldra sem fólk er, því líklegra er að það muni kjósa framboðið. Voru flestir þeirra sem töldu það líklegt í elsta aldurshópnum, 67 til 85 ára; rúm 60 prósent.
Fjöldi þeirra sem sögðust líklega kjósa framboð eldri borgara minnkar með aukinni menntun og hærri fjölskyldutekjum samkvæmt könnuninni. Ekki mældist marktækur munur eftir búsetu.
Þegar afstaða var skoðuð út frá því hvaða flokk fólk myndi kjósa í dag kemur fram að þeir sem kjósa Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn eru síður líklegir til að kjósa framboðið. Kjósendur Vinstri grænna voru fjölmennastir þeirra sem sögðust líklega kjósa framboð eldri borgara. Endanlegt úrtak var 1.300 manns og var svarhlutfall 60,9 prósent.
|