Undanfarið hefur mikið verið rætt um Evrópska efnahagssvæðið í tilefni af stækkun Evrópusambandsins en við það stækkar EES.Stjórnmálamenn lofa og prísa Evrópska efnahagssvæðið og virðast allir sammála um ágæti þess enda þótt þá greini á um hvort Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið eða ekki. En hefur þetta alltaf verið svo? Nei,öðru nær. Þegar aðild að EES var á dagskrá ríktu hatrammar deilur um málið hér á landi.Í upphafi voru bæði Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn á móti aðild Ísland að EES. Sjálfstæðismenn vildu í upphafi að í staðinn yrði gerður tvíhliða samningur við ESB. Framsókn var á móti aðild. Þegar greidd voru atkvæði um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu greiddu þingmenn Framsóknar atkvæði á móti. Halldór Ásgrímsson sat hjá!
Jón Baldvin knúði málið í gegn
Ef einhver einn stjórnmálamaður á heiðurinn af aðild Íslands að EES er það Jón Baldvin Hannibalsson. Hann barðist ótrauður fyrir aðild Íslands að EES. Úr herbúðum Framsóknar heyrðust háværar raddir um,að það væri stjórnarskrárbrot að ganga í Evrópska efnahagssvæðið. Ísland væri að afsala sér verulegum hluta af sjálfstæði sínu með því að gerast þar aðili. En Jón Baldvin,sem þá var utanríkisráðherra, lét slíkar raddir ekki á sig fá. Hann hélt ótrauður baráttunni áfram, fékk það samþykkt á alþingi að Ísland gengi í EES og skrifaði sjálfur undir samning þar um í Oporto í Portugal. Nú vildu allir Lilju kveðið hafa.
ESB neitar að endurskoða EES
Ísland og Noregur hafa ítrekað óskað eftir því við ESB,að EES samningurinn væri endurskoðaður. T.d. hafa ríkin óskað eftir því,að samningurinn tæki til allra sjávarafurða en svo er ekki í dag.Einnig hafa ríkin óskað eftir því að fá aðkomu að fleiri málum hjá ESB en þau fá í dag. ESB sagði meðan samningaviðræður um stækkun ESB stóðu yfir,að endurskoðun EES samningsins yrði tekin á dagskrá þegar stækkunarferlinu væri lokið. En nú er ljóst,að ekkert verður af endurskoðun á EES samningnum. Það vantar áhugann hjá ESB.EFTA ríkin verða að sætta sig við það nema þau vilji ganga í ESB. Hugsanlegt er,að Noregur óski eftir aðild að ESB eftir næstu þingkosningar þar í landi. En Ísland sækir ekki um inngöngu á meðan núverandi ríkisstjórn er við völd. Aðild að ESB er ekki á dagskrá hjá núverandi stjórn.
Björgvin Guðmundsson,viðskiptafræðingur
----------------------------------------------------------------------------- Ráðherrar Alþýðuflokksins innleiddu
frelsi á sviði viðskipta og fjármagnsflutninga hér á landi: Gylfi Þ.Gíslason,Jón Baldvin Hannibalsson og Jón Sigurðsson. Sjálfstæðisflokkurinn dró lappirnar. |