Mótmæli gegn framkvæmdum við Kárahnjúka hafa vakið nokkra athygli.Það er ekki aðeins, að íslenskir mótmælendur hafi verið að verki á virkjunarsvæðinu heldur hefur einnig verið þar nokkur hópur erlenda mótmælenda,nokkurs konar atvinnumótmælendur. Í fyrstu var um friðsamleg mótmæli að ræða en síðan breyttust aðferðirnar og mótmælendur unnu nokkurt tjón einkum með því að trufla framkvæmdir m.a. með því að hlekkja sig við stórvirkar vinnuvélar.Slíkum aðferðum er ekki unnt að mæla bót.Árangur hefði áreiðanlega orðið meiri af mótmælunum,ef þeir hefðu haldið sig við löglegar aðferðir.
Vill sem flestar álverksmiðjur!
Mótmælendur sögðust vera umhverfisverndarsinnar,sem berðust gegn spjöllum á íslenskri náttúru. Það kann vel að vera rétt.Atburðirnir við Kárahnjúka leiða hugann að því á hvaða vegi Íslendingar eru staddir í virkjana- og stóriðjumálum. Það er búið að reisa margar álverksmiðjur hér á landi og ekkert lát virðist þar á. Núverandi iðnaðarráðherra virðist vilja fá sem flestar álverksmiðjur og til þess þarf mikla raforku,margar virkjanir.
Atvinnulífið fjölbreyttara nú
Þegar fyrsta álverksmiðjan var reist hér á landi í Straumsvík var mikill meirihluti landsmanna því hlynntur. Það vantaði þá tilfinnanlega fleiri stoðir undir íslenskt atvinnulíf. Við vorum þá of háðir sjávarútveginum og íslenskt efnahagslíf viðkvæmt fyrir öllum sveiflum í fiskveiðum og sölu á sjávarafla. En mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan. 40 ár eru liðin. Íslenskt atvinnulíf er í dag mikið fjölbreyttara en áður. Nýjar atvinnugreinar hafa vaxið upp eins og hugbúnaðariðnaður. Ferðaiðnaðurinn hefur blómgast. Ýmis konar annar iðnaður hefur eflst eins og lyfjaframleiðsla.
Útrás íslenskra fyrirtækja
Og á síðustu árum hefur fjármálastarfsemi orðið útflutningsvara.Á sviði hennar hafa íslenskir bankamenn gert útrás til útlanda ásamt öðrum stórathafnamönnum,sem fjárfest hafa í fjölda fyrirtækja erlendis. Þegar svona er komið er ekki þörf á því að reisa fleiri hráálsverksmiðjur hér á landi. Það er komið nóg. Nú þurfum við fremur að snúa okkur að úrvinnslu úr áli hér á landi. Og við þurfum að efla ýmis konar úrvinnslu úr íslenskum fiski til þess að skapa meira verðmæti úr fiskinum. Við skulum ekki reisa fleiri stórvirkjanir vegna hráálsverksmiðja. Æskilegra er að virkja gufuaflið úr iðrum jarðar. Það hefur minni náttúrurspjöll í för með sér.
Mengun og spjöll á náttúrunni
Því verður ekki neitað,að stóriðjuframkvæmdir og virkjanir í þeirra þágu hafa í för með sér nokkur náttúruspjöll.Nokkur mengun er einnig frá álverksmiðjum enda þótt gerðar hafi verið ráðstafanir til þess að draga úr slíkri mengun með góðum árangri. Norðmenn eru hættir að virkja sína fossa og stórfljót.Þeir vilja vernda náttúruna en þeir hafa einnig ennþá næga olíu og gas.Við skulum nú hafa kaflaskipti í stóriðjuframkvæmdum ,ekki reisa fleiri stórar álverksmiðjur og ekki reisa fleiri stórvirkjanir í okkar fljótum og fossum. Virkjum heldur jarðhitann til hins ítrasta.
Björgvin Guðmundsson
Birt í Morgunblaðinu í sept. 2005