Sú var tíðin,að aðeins einn háskóli var í landinu. Nú eru þeir nokkrir og þar á meðal eru nú einkaskólar á háskólastigi.Einkaskólarnir innheimta skólagjöld en fá einnig há framlög frá ríkinu. Segja má því,að einkaskólarnir séu hálfopinberir enda þótt oft sé látið í veðri vaka,að þeir standi á eigin fótum. Háskóli Íslands hefur algera sérstöðu meðal háskólanna: Hann er sá eini sem hefur rannsóknarhlutverk og er því sá eini,sem er sambærilegur við háskóla erlendis. Auk þess er Háskóli Íslands eini háskólinn hér a landi sem býður upp á nám í nær öllum greinum. Nýju einkaháskólarnir bjóða aðeins nám í fáum greinum þ.e. þeim,sem mikil eftirspurn er eftir.Þeir fleyta rjómann ofan af í greininni,ef svo má segja.
Metingur á milli háskóla
Frá því einkaskólarnir risu upp hefur verið talsverður metingur á milli háskólanna. Einnig hefur það tíðkast talsvert að undanförnu, að vissir blaðamenn og aðrir hafi verið að reka hornin í Háskóla Íslands og segja,að sá skóli væri ekki eins “góður” og einkaskólarnir. Háskóli Íslands væri ekki eins framsækinn og einkaskólarnir,ekki eins metnaðarfullur. Þetta er ósanngjörn gagnrýni. Háskólarnir eru ekki sambærilegir.Háskóli Íslands hefur algera sérstöðu meðal háskólanna. Áður er vikið að rannsóknarhlutverki Háskóla Íslands. En auk þess er rétt að ítreka það,að Háskóli Íslands verður að halda uppi kennslu í nær öllum háskólagreinum,hvort sem eftirspurn eftir þeim er mikil eða ekki. Einkaháskólarnir líkjast í þessum efnum fremur háskóladeildum en fullkomnum háskólum eins og þeir gerast erlendis.
Hugmyndir um skólagjöld
Undanfarið hafa löggjafinn og ríkisvaldið skorið niður framlög til Háskóla Íslands.Liggur við,að Háskólinn búi nú við fjársvelti. Hefur þessi staða leitt til þess að háværar raddir eru nú um það innan Háskólans,að hann fái að leggja á skólagjöld.Forráðamenn Háskóla Íslands líta til einkaskólanna í þessu efni og sjá,að þeir fá að innheimta skólagjöld enda þótt þeir njóti einnig opinberra framlaga.Það er engu líkara en stjórnarflokkarnir hafi verið að halda niðri framlögum til Háskólans til þess að geta komið á skólagjöldum. Fram til þessa hefur Háskóli Íslands verið opinn öllum án tillits til efnahags. Jafnt háir sem lágir,ríkir sem fátækir hafa getað stundað nám við Háskóla Íslands. Má segja,að þetta hafi verið aðalsmerki Háskólans ásamt því að takmarka ekki fjölda þeirra,sem fá aðgang að skólanum. En að vísu hefur örlítið verið látið undan í því efni. Áríðandi er að halda Háskóla Íslands opnum fyrir alla.Háskólinn verður að vera opinn öllum án tillits til efnahags. Það hefur alltað verið stefna jafnaðarmanna,að Háskólinn væri opinn öllum.Jafnaðarmenn vilja,að efnaminni stúdentar eigi sömu möguleika til háskólanáms og þeir efnameiri.
Ekki dugar að benda á Lánasjóðinn
Þeir sem berjast fyrir skólagjöldum hafa m.a. bent á það,að stúdentar muni geta fengið lán hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna fyrir skólagjöldum. Því muni efnaminni stúdentar eiga sömu möguleika til náms eftir sem áður. En þetta eru falsrök. Lán þarf að greiða. Og ekki vilja allir taka mikil lán.
Nauðsynlegt er að berjast hatrammlega gegn skólagjöldunum. Löggjafi og ríkisvald verða að tryggja Háskóla Íslands nægilegt fjármagn. Öflugur og framsækinn ríkisháskóli er aðalsmerki hverrar sjálfstæðrar þjóðar. Það gengur ekki að ætla að velta kostnaði Háskólans yfir á nemendur. Margir telja einnig,að ef skólagjöld væru tekin upp mundi ríkið draga úr fjárframlögum til Háskólans þannig,að skólinn stæði í sömu sporum á eftir eins og áður. Vissulega er hætta á því. Krafan er: Engin skólagjöld við Háskóla Íslands
Björgvin Guðmundsson
Birt í Mbl. 19.apríl 2004 |