Björgvin Guðmundsson var gestur Sigurðar G. Tómassonar á Útvarpi Sögu 27.janúar 2004.Var rætt um ýmis mál,pistla Björgvins í Morgunblaðinu og á heimasíðu hans,vinstri meirihlutann 1978-1982,innanlandspólitík og utanríkismál,blaðamennsku o.fl.
VINSTRI MEIRIHLUTANUM TÓKST VEL
Björgvin sagði,að samstarf Alþýðuflokks,Framsóknarflokks og Alþýðubandalags um stjórn Reykjavíkurborgar 1978-1982 hefði gengið vel.Samkomulag hefði verið um öll mál nema eitt,þ.e. sameiningu Landsvirkjunar og Laxárvirkjunar. En það mál hefði raunar ekki verið mál,er varðaði stjórn borgarinnar. Fullt samkomulag hefði verið í öllum málum varðandi fjárhagsáætlanir og stjórnun borgarinnar. Hins vegar hefði Sjálfstæðisflokkurinn gert mikið úr þessu eina ágreiningsmáli.
EKKI ÞÖRF Á LÖGUM UM HRINGA
Rætt var um það hvort þörf væri á lögum um hringamyndun og um eignarhald á fjölmiðlum. Björgvin taldi,að núgildandi samkeppnislög dygðu í því efni. Í þeim væru nægilegar heimildir fyrir samkeppnisyfirvöld til þess að grípa inn í ef um skaðlegar samkeppnishömlur væri að ræða eða ef markaðsráðandi fyrirtæki misnotuðu aðstöðu sína á markaðnum. Samkeppnislögin dygðu einnig fyrir fjölmiðla.
VIÐSKIPTAFRELSIÐ VEGNA EES
Björgvin sagði,að viðskiptafrelsið í landinu væri tilkomið vegna aðildar okkar að EES. Sjálfstæðisflokkurinn hefði í fyrstu verið á móti aðild okkar að EES. Við værum því ekki í EES ef Sjálfstæðisflokkurinn hefði mátt ráða. Alþýðuflokkurinn undir forustu Jóns Baldsins hefði beitt sér fyrir aðild okkar að EES. Framsókn hefði verið á móti eða setið hjá.
ALÞINGI RÆÐI ÁRÁSINA Á ÍRAK
Utanríkismál voru rædd vítt og breitt,þar á meðal forsetakosningarnar í Bandaríkjunum og innrásin í Írak. Björgvin gagnrýndi innrás Bandaríkjanna og Bretlands í Írak og taldi,að hún hefði verið gerð að tilefnislausu.Engin gereyðingarvopn væru í Írak. Gagnrýndi hann,að Ísland skyldi styðja innrásina.Sagði Björgvin,að leggja hefði átt málið fyrir utanríkismálanefnd og alþingi.Það hefði ekki verið gert og því hefði ákvörðun íslensku stjórnarinnar verið ólögleg. |