Ríkisstjórnin hefur haft 40 milljarða af öldruðum og öryrkjum
Á valdatímabili ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins sl. 10 ár hafa stjórnvöld haft 40 milljarða af öldruðum og öryrkjum.Þetta er mikið fé og alger svívirða,að þetta skuli hafa viðgengist.Til þess að skila þessu fólki aftur því,sem ranglega hefur af því verið haft hefði því þurft að láta það fá meginhlutann af peningunum,sem fengust fyrir sölu Símans en það voru sem kunnugt er 67 milljarðar. En svo mikil var óskammfeilni ríkisstjórnarinnar,að hún lét ekki aldraðra og öryrkja fá eina krónu af þessu fé!
Lofað var,að engin skerðing mundi eiga sér stað
Árið 1995 ákváðu stjórnvöld að skera á tengsl milli lífeyris aldraðra og öryrkja frá almannatryggingum og lágmarkslauna á almennum vinnumarkaði. Fram að þeim tíma höfðu lífeyrisgreiðslur hækkað sjálfvirkt um leið og lágmarkslaun hækkuðu. Við þessa breytingu var ákveðið,að lífeyrisgreiðslur ættu frá þeim tíma að taka mið af launaþróun.Þáverandi forsætisráðherra lýsti því yfir við þessa breytingu, að lífeyrisgreiðslur mundi ekki skerðast við breytinguna,heldur þvert á móti verða tryggar og rúmlega það.Það yrði bæði tekið mið af launabreytingum og verðlagsbreytingum.Tryggingin yrði tvöföld. Reynslan hefur orðið önnur.Á þessu 10 ára tímabili,sem liðið er síðan, hefur kaupmáttur lífeyrisgreiðslna aldraðra og öryrkja aðeins aukist um helming þess,sem hann hefur aukist hjá verkafólki með lægstu laun. Alls hefur ríkisstjórnin haft af öldruðum og öryrkjum á þessu tímabili 40 millarða króna.Með öðrum orðum: Ef lífeyrir aldraðra og öryrkja,grunnlífeyrir og tekjutrygging, hefði áfram hækkað í samræmi við hækkanir á launum verkafólks og haldið raungildi sínu eins og þær bætur voru 1995 hefðu þessar lífeyrisgreiðslur verið 40 milljörðum hærri á tímabilinu en þær voru. Grunnlífeyrir og full tekjutrygging aldraðra og öryrkja væru 17 þús. kr. hærri á mánuði nú en þær bætur eru,ef þær hefðu hækkað í samræmi við hækkun lágmarkslauna frá 1995.
Skattpíning aldraðra og öryrkja
Á sama tíma og framangreind þróun hefur átt sér stað varðandi kaupmátt lífeyris aldraðra og öryrkja hefur skattpíning þessa fólks aukist. Skerðing skattleysismarka hefur bitnað þunglega á öldruðum og öryrkjum:Skerðingin frá 1989,sem að mestu verður eftir 1995, er samkvæmt upplýsingum fjármálaráðuneytis 36,4 milljarðar ( m.v. 2003).Ríkissjóður tók því 36,4 milljarða meira til sín árið 2003 en verið hefði, ef skattleysismörk hefðu fylgt launavísitölu eins og eðlilegt hefði verið. Ef miðað væri við neysluvísitölu nemur upphæðin 16,3 milljörðum,sem ríkið hefur tekið meira til sín en verið hefði ef skattleysismörk hefðu fylgt þeirri vísitölu.Hér er um háar fjárhæðir að ræða. Ríkisstjórnin hefur notað þessa fjármuni til þess að lækka skatta á fyrirtækjum. Það hefur haft forgang. Skattleysismörk eru kr. 71.296 í ár en ættu að vera kr. 114.015, ef þau hefðu fylgt launavísitölu en kr. 85.709, ef þau hefðu fylgt neysluvísitölu. Þessi þróun hefur leitt til þess,að öryrkjar og aldraðir,sem áður greiddu enga skatta greiða nú háar fjárhæðir í skatta. 29 þús manns með tekjur undir 100 þús kr. greiddu á sl. ári 2 milljarða í skatta! Lífeyrisþegi,sem engar tekjur hefur aðrar en bætur almannatrygginga er nú farinn að greiða sem svarar 1 ½ -2ja mánaða bótum á ári í skatta. Framkoma stjórnvalda við aldraða og öryrkja er til skammar.
Björgvin Guðmundsson
Birt í Fréttablaðinu í september 2005
|