Sjálfstæðismenn hafa gert mikið úr tillögum, sem þeir fluttu á landsfundi sínum um málefni eldri borgara.Tillögur þessar vigta þó mjög lítið eins og Jóhanna Sigurðardóttir benti strax á og forsvarsmenn Landssambands eldri borgara (LEB) sýna fram á í grein í Mbl. í dag. Þeir Ólafur Ólafsson formaður LEB og Einar Árnason hagfræðingur LEB skrifa um málið.
Eftirfarandi kemur m.a. fram í grein forsvarsmanna LEB: Lækkun á skerðingarhlutfalli lífeyris almannatrygginga úr 38,35 % í 35%: Fyrir dæmigerðan ellilífeyrirsþega,sem hefur 50.000 á mánuði úr lífeyrissjóði þýðir þetta,að hann heldur eftir 1.077 kr. meira á mánuði eftir þessa breytingu. Það eru öll ósköpin.Hin tillagan sem Sjálfstæðismenn flagga mjög er sú, að lífeyrisþegi sem býr einn og ekkert fær úr lífeyrissjóði fái 25000 krónur úr sjóðnum þó hann hafi engin réttindi þar. Af þessu mundi 17.500 kr. fara í skatta og skerðingar þannig,að ekki yrðu eftir nema 7500 kr. á mánuði.
Þeir Ólafur og Einar benda á að ellilífeyrisþegar hafi dregist aftur úr í kjaramálum. Kaupmáttur ráðstöfunartekna þeirra hafi aðeins aukist um 20% frá 1995 á sama tíma og almenningur hafi fengið 60%. samkvæmt því sem stjórnvöld segi.
Sjálfstæðismenn ræddu ekkert um það á landsfundi sínum að hækka grunnlífeyri eða tekjutryggingu eldri borgara. Samkvæmt neyslukönnun Hagstofunnar nema neysluútgjöld einstaklinga nú 210 þúsund á mánuði.Það er því eðlilegt að lífeyrir aldraðra hækki í þá upphæð en í dag nemur lífeyririnn aðeins 113 þúsund eftir skatta hjá einhleypingum. Það er skammarlega lágt og enginn lifir mannsæmandi lífi af þeirri fjárhæð.
Björgvin Guðmundsson
|