Einkavæðing bankanna mistókst.Helmingaskiptastjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar stóð fyrir einkavæðingu bankanna og samkvæmt gömlu helmingaskiptareglunni voru bankarnir afhentir einkavinum stjórnarflokkanna.Það var ekkert hugsað um það að bankarnir lentu í höndum aðila,sem kynnu að reka banka.Þorvaldur Gylfason prófessor hefur bent á það, að það hafi verið mikil mistök að tryggja ekki að bankarnir færu í hendur aðila,sem væru hæfir til þess að reka banka.Einkavæðingarnefnd var mjög óánægð með framgöngu flokksforingjanna við einkavæðinguna og sögðu lykilmenn í nefndinni sig úr henni af þeim sökum. Framkvæmd einkavæðingarinnar voru fyrstu og einhver alvarlegustu mistökin,sem gerð voru í þessu ferli, en næstu mistökin voru þau,að bankarnir voru eftir einkavæðingu látnir dansa lausir og stofna til óheyrilegra skulda erlendis.Seðlabankinn hefur heimildir til þess að auka bindiskyldu bankanna og á þann hátt að takmarka fjárráð þeirra og bankinn hefði einnig getað takmarkað lántökur þeirra erlendis.En Seðlabankinn sat aðgerðarlaus með hendur í skauti og gerði ekkert til þess að takmarka umsvif bankanna og lántökur erlendis.Sama er að segja um Fjármálaeftirlitið. Það gerði ekkert þegar umsvif bankanna erlendis margfölduðust og lántökur jukust dag frá degi
Fóru of hratt og óvarlega
Væri allt í lagi hér í fjármálakerfinu,ef framangreind mistök hefðu ekki verið gerð? Svarið er nei. Hin alþjóðlega fjármálakreppa hefði eftir sem áður farið í gang. En ef íslensku bankarnir hefðu verið reknir á ábyrgan hátt og aðeins verið um litlar og hóflegar lántökur erlendis að ræða hjá þeim þá hefði vandinn í dag verið lítill og viðráðanlegur..Eftirlitsstofnanir,Fjármálaeftirlit og Seðlabanki,hefðu getað tryggt,að svo hefði orðið.Og eins hefði það verið,ef bankarnir hefðu áfram verið í höndum ríkisins.Ríkisbankarnir hefðu aldrei skóflað upp öllum þessum erlendu lánum,sem einkabankarnir tóku.Það er ljóst, að einkabankarnir fóru alltof geyst í útrás og fjárfestingar erlendis.Þeir áttu að fara varlega og ef þeir hefðu gætt þess,að skuldsetja sig ekki meira erlendis en vel var viðráðanlegt og auðvelt að endurgreiða þá væri staðan önnur í dag en hún er.
Ég var alltaf vantrúaður á einkavæðingu bankanna. Ég taldi,að ekki hefði átt að einkavæða meira en einn ríkisbanka en hinir hefðu áfram átt að vera í höndum ríkisins. Margir bentu á þetta sama og staðan hjá okkur væri betri í dag ef farið hefði verið að þessum ráðum.Þeir,sem bera höfuðábyrgð á algerri einkavæðingu bankanna, eru Davíð Odddsson og Halldór Ásgrímsson.
Seðlabankinn helt klaufalega á málum
Ég tel,að núverandi ríkisstjórn hafi tekið nokkuð vel á málum eftir að bankarnir voru að komast í þrot.Neyðarlögin voru sett til þess að lágmarka skaðann og tryggja hagsmuni almenning og þá fyrst og fremst sparifjáreigenda, Að vísu tel ég,að Seðlabankinn hafi haldið klaufalega á málum, þegar hann neitaði Glitni um lán til þess að greiða erlent lán að fjárhæð 150 millj. evra.Í stað þess að veita Glitni lán ákvað Seðlabankinn að ríkið mundi kaupa 75% í Glitni á 84 milljarða kr.og ríkisstjórnin samþykkti það. Strax eftir þessa ráðstöfnun hrundi krónan og hlutabréf hríðféllu og svo virðist sem það hafi haft örlagaríkar afleiðingar fyrir íslenskan fjármálamarkað að íslenska ríkið ákvað að þjóðnýta Glitni Lánshæfismat ríkisins og bankanna lækkaði mikið strax eftir ráðstöfun Seðlabankans. Ef til vill var erfitt að sjá þessar afleiðingar fyrir en inngrip ríkisins með hlutafé í einn bankanna virðist hafa skapað hræðslu erlendis og vantrú á
islennka fjármálamarkaðnum.
Bankarnir verða eins og fyrir einkavæðingu
Nú virðist stefnt að því að koma bönkunum að mestu í það horf,sem þeir voru í fyrir einkavæðingu,það er litla banka,sem þjóni Íslandi..Með því að færa bankana í fyrra horf er verið að viðurkenna,að einkavæðingin hafi mistekist og að
hún hafi jafnvel verið óþörf. Það er að vísu erfitt fyrir frjálshyggjumenn,að viðurkenna að einkavæðing mistakist. Og þeir reyna að skella skuldinni alfarið á hina alþjóðlegu fjármálakreppu. En það tekst ekki. Vandinn er einnig að verulegu leyti heimatilbúinn.
Við skulum fara varlega í frekari einkavæðingu.Ríkið getur ekki alltaf komið til bjargar þegar allt er komið í óefni.
Björgvin Guðmundsson
Birt í Mbl. 21.okt.2008 |