Allt frá því,að forsætisráðherra skýrði frá í kastljósi Sjónvarpsins 6.desember sl.að aðild Íslands að innrásinni í Írak hefði ekki verið rædd í ríkisstjórn hafa fjölmiðlar sótt hart að ráðherranum og óskað skýringa.Ráðherrann tók það ráð að loka sig af og láta fjölmiðla ekki ná í sig. Hann treysti sér ekki til þess að réttlæta og skýra það,að ríkisstjórn og utanríkismálanefnd hefði verið sniðgengin í þessu mikilvæga máli.
En á mánudag fékk ráðherrann skyndilega málið á ný. Þá var hann kominn með lögfræðiálit upp á vasann frá Eiríki Tómassyni flokksbróður sínum.Eiríkur sagði í þessu pantaða áliti,að þeir Davíð og Halldór hefðu verið á fullum rétti að taka ákvörðun um það einir að láta Ísland lýsa yfir stuðningi við árás á annað ríki! Menn urðu mjög hissa á þessu áliti Eiríks. Ólafur Hannibalsson sagði í Silfri Egils,að Eiríkur Tómasson væri vonbiðill um embætti Hæstaréttardómara og menn yrðu að skoða þetta álit hans í því ljósi.
Það þarf engan lögspeking til þess að sjá það,að árás á annað ríki,stuðningur við innrás í annað ríki er meiri háttar utanríkismál,sem bera þarf undir utanríkismálanefnd. Og það sér hver leikmaður,að árás á annað ríki er mikilvægt mál.Aðild Ísland að slíku máli er mikilvægt stjórnarmálefni.Samkvæmt stjórnarskrá Íslands ber að leggja slíkt mál fyrir ráðherrafund,fyrir fund ríkisstjórnar. Það var ekki gert og málið var heldur ekki lagt fyrir utanríkismálanefnd eins og lög kveða á um. Það er alveg sama hvað forsætisráðherra fær marga lögfræðinga til þess að toga það og teygja hvað telst meiri háttar utanríkismál. Sérhver venjulegur ríkisborgari Íslands veit það,að ef Ísland ætlar að brjóta hefðbundna utanríkisstefnu Íslands og lýsa yfir stuðningi við árás á annað ríki í berhögg við öryggisráð Sþ þá er það meiriháttar utanríkismál og mikilvægt stjórnarmálefni sem bera skal undir utanríkismálanefnd og ríkisstjórn.Það skiptir engu máli í þessu sambandi þó ríkisstjórnin sé fjölskipað stjórnvald og utanríkisráðherra geti tekið ákvarðanir einn um minni háttar utanríkismál.Hann getur ekki einn og ekki í samráði við forsætisráðherra tekið ákvörðun um árás á annað ríki.
Össur Skarphéðinsson formaður Samfylkingarinnar hefur nú einnig bent á það,að sú ákvörðun utanríkisráðherra ( og forsætisráðherra) þegar í febrúar að ljá Bandaríkjunum og Bretlandi afnot af Keflavíkurflugvell fyrir árásarflugvélar á Írak hafi verið brot á stjórnarskránni.Slíkt hafi ekki verið heimilt án samþykkis alþingis.
Það er því alveg sama hvar borið er niður: Einhliða ákvarðanir forsætisráðherra og utanríkisráðherra um stuðning Íslands við innrás í Írak og um að setja Ísland á lista hinna staðföstu þjóða standast hvorki lög né stjórnarskrá.
Björgvin Guðmundsson |