Morgunblaðið segir,að 25,2% kjósenda telji líklegt,að þeir mundu styðja framboð eldri borgara, ef það kæmi fram við alþingiskosningar samkvæmt skoðanakönnun Gallups. Þetta er gífurlegt fylgi við hugsanlegt framboð eldri borgara Þessi niðurstaða bendir til þess, að framboð eða flokkur eldri borgara gæti strax í byrjun orðið einn stærsti flokkur landsins. Þetta er með ólíkindum. Hvað segir þetta okkur: Jú þetta segir okkur það, að það er gífurleg óánægja meðal eldri borgara með kjör og aðbúnað þessa fólks. Þetta segir okkur það, að eldri borgarar blása á þetta svokallaða “samkomulag” eða yfirlýsingu ríkisstjórnar og Landssambands eldri borgara. Þeir telja það lítils virði.Eldri borgarar vilja fá raunhæfar kjarabætur og úrbætur í sínum málum strax. Þess vegna eru þeir tilbúnir að bjóða fram við alþingiskosningar, ef þess þarf til þess að fá fram þær kjarabætur, sem nauðsynlegar eru.
Ríkisstjórnin hefur brugðist
Ég hefi áður skrifað um þetta mál, kjör eldri borgara og hugsanlegt framboð þeirra. Ég varpaði fram þeirri hugmynd, að gefa ætti stjórnmálaflokkunum eitt tækifæri enn.Ég veit,að vísu, að aldraðir eru orðnir mjög þreyttir á stjórnmálamönnunum. Þeir eru orðnir þreyttir á ríkisstjórninni og telja hana hafa brugðist í málefnum eldri borgara. Þeir treysta því ekki, að hún muni taka sig á og þeir eru tortryggnir gagnvart öðrum stjórnmálaflokkum. Það er eðlilegt.Sporin hræða. Fróðlegt verður að sjá hvernig stjórnmálaflokkarnir bregðast við þessum tíðindum um gífurlegt fylgi við hugsanlegt framboð eldri borgara. Munu stjórnmálaflokkarnir taka sig á og sýna öldruðum, að þeim sé alvara með það að gera róttækar breytingar á kjörum aldraðra. Ef stjórnmálaflokkarnir geta sýnt fram á það, er hugsanlegt að ekki verði af framboði eldri borgara. En það þarf mjög róttækar aðgerðir til þess að afstýra slíku framboði.
Lífeyrir aldraðra hækki í 160-180 þúsund
Hvað þarf að hækka lífeyri aldraðra mikið svo sómasamlegt sé? Ég hefi bent á, að meðaltals neysluútgjöld einstaklinga samkvæmt neyslukönnun Hagstofu Íslands séu 178 þúsund krónur á mánuði fyrir utan skatta. Með hliðsjón af þeirri könnun er ljóst, að hækka verður lífeyri einstaklinga frá almannatryggingum upp í 160-180 þúsund krónur á mánuði svo viðunandi sé. Það er algert lágmark.Þessi upphæð er í samræmi við kröfu sem Öryrkjabandalag Íslands og Landssamband aldraða (LEB) settu fram sameiginlega í skýrslu um kjaramál. Mín skoðun er sú, að það sé algert lágmark að hækka lífeyri einstaklinga frá almannatryggingum í 160 þúsund á mánuði (Er 123 þúsund í dag).Verði það gert má hugsanlega afstýra framboði eldri borgara. Síðan þarf að hækka skattleysismörkin verulega. Öryrkjabandalagið og LEB gerðu kröfu til þess, að þau færu í 130 þúsund á mánuði. Það er ekki nóg. Það þarf að hækka þau meira. Önnur leið er sú,að hafa lífeyri aldraðra frá almannatryggingum skattfrjálsan án þess að hækka skattleysismörkin svo mikið almennt. Síðan þarf að lækka skatt á lífeyri úr lífeyrissjóðum. Hann á ekki að vera hærri en skattur á fjármagnstekjum eða 10%.Og sá skattur á að haldast óbreytttur þó skattur á fjármagsntekjum verði hækkaður..Tekjur úr lífeyrissjóði eiga ekki að skerða lífeyri frá almannatryggingum.Draga verður
úr öðrum tekjutengingum. Allar þessar breytingar verða að taka gildi strax eða í síðasta lagi um næstu áramót.Gera verður einnig átak í því að fjölga hjúkrunarrýmum fyrir aldraðra strax. Þar dugir ekkert margra ára “plan”.Það verður sennilega að taka í notkun eldra húsnæði í þessu skyni og breyta því svo unnt sé að taka það í notkun fljótlega.
Hvað gerir LEB?
Landssamband eldri borgara (LEB),sem stóð að yfirlýsingunni með ríkisstjórninni, sagði: Við komum aftur í haust. LEB ætlar að knýja á um frekari kjarabætur nú í haust fyrir eldri borgara. Fróðlegt verður að sjá viðbrögð ríkisstjórnar við þeim kröfum. Það veltur á viðbrögðum ríkisstjórnarinnar og viðbrögðum allra stjórnmálaflokkanna hvort eldri borgar bjóða fram sjálfstætt eða ekki. Það liggur alla vega ljóst fyrir, að framboð eldri borgara mundi fá mikið fylgi.
Björgvin Guðmundsson
Birt í Morgunblaðinu 16.oktober 2006
Birt í Fréttablaðinu 10.oktober 2006
|