Nú er aðeins rúmt ár eftir af kjörtímabili núverandi ríkisstjórnar. Það verður kosið til alþingis vorið 2013.Það er eftir að afgreiða nokkur stórmál svo sem stjórnarskrármálið, kvótamálið og rammaáætlunina um virkjanir og verndun náttúru.Ég vil bæta við einu stórmáli: Leiðréttingu á kjörum aldraðra og öryrkja.Ríkisstjórnin segist ætla að afgreiða stórmálin á kjörtímabilinu en það lítur ekkert of vel út með það, að ríkisstjórninni takist að afgreiða öll þessi mál í tíma á viðunandi hátt.
Ríkisstjórnin gælir við það að leggja drög að nýrri stjórnarskrá undir þjóðaratkvæði ( ráðgefandi) í vor.En samt er óvíst, að það takist að afgreiða nýja stjórnarskrá á kjörtímabilinu.Það verður þó reynt. Unnið er að nýju frumvarpi um stjórn fiskveiða.Fyrri frumvörpum, sem Jón Bjarnason lagði fram, hefur verið vísað á bug.Ekki er ég bjartsýnn á, að nýtt frumvarp Steingríms J. Sigfússonar,sjávarútvegsráðherra,verði betra en þau eldri. Ég óttast, að í nýju frumvarpi verði gert ráð fyrir jafnlöngum nýtingartíma veiðiheimilda og var í frumvörpum Jóns Bjarnasonar eða jafnvel lengri tíma. Jón Bjarnason lagði til 15-23 ja ára nýtingartíma.Steingrímur verður sennilega með 20-30 ára nýtingartíma.Þessar hugmyndir ganga algerlega í berhög við fyrningarleiðina, sem stjórnarflokkarnir boðuðu fyrir síðustu kosningar.En samkvæmt þeirri leið átti að fyrna kvótana á 20 árum. Ég er algerlega andvígur því að afhenda útgerðarmönnum ( núverandi handhöfum kvóta) veiðiheimildirnar til 20- 30 ára. Ég tel,að setja eigi veiðiheimildir á frjálsan uppboðsmarkað og kaupendur eigi að greiða markaðsverð fyrir þær eins og stjórnlagaráð lagði til.Auk þess má hafa einhverja potta fyrir landsbyggðina. Rammaáætlunin er komin einna lengst af þeim stórmálum, sem þarf að afgreiða á kjörtímabilinu. Þó er nokkur ágreiningur milli stjórnarflokkanna um viss atriði áætlunarinnar.
En hvað með leiðréttingu á kjörum aldraðra og öryrkja? Ekkert bólar á því, að ríkisstjórnin ætli að gera neitt í því máli.Velferðarráðherra setti í gang endurskoðun á lífeyriskerfi almannatrygginga.Áður hafði Stefán Ólafsson prófessor,formaður stjórnar Tryggingastofnunar, unnið að því máli. Stefán lagði til sameiningu nokkurra bótaflokka almannatrygginga og tilfærslur innan kerfisins en gerði ekki ráð fyrir neinu nýju fjármagni inn í kerfið. Þessar tillögur fengu slæmar móttökur. Nýr starfshópur velferðarráðherra vinnur á sömu nótum og Stefán Ólafsson gerði: Leggur til sameiningu þriggja bótaflokka í einn ( grunnlífeyri,tekjutryggingu og heimilisuppbót).En ekki er gert ráð fyrir neinni almennri hækkun lífeyris! Öryrkjabandalagið hefur tekið þessum tillögum illa og hefur ákveðið að taka ekki þátt í vinnu starfshóps um endurskoðun trygginganna á meðan ekki er gert ráð fyrir kjarabótum öryrkja og aldraða við endurskoðunina. Kjaramálanefnd LEB og kjaranefnd FEB í Reykjavík hafa ályktað, að markmið endurskoðunar almannatrygginga eigi að vera að bæta kjör aldraðra og öryrkja en ekki eingöngu að gera tilfærslur innan kerfisins.
Svo virðist, sem það sé ætlun stjórnvalda að hækka ekki lífeyri aldraðra og öryrkja árin 2012 og 2013 umfram það, sem kjarasamningar gera ráð fyrir.Ef þetta er rétt er um hreina aðför að kjörum aldraðra og öryrkja að ræða.Lífeyrisþegar eiga rétt á því lögum samkvæmt, að lífeyrir þeirra verði endurskoðaður og leiðréttur í samræmi við kauphækkanir og verðlagshækkanir á krepputímanum.Til þess að leiðrétta kjörin að fullu þarf að hækka bætur um 30 prósent.Þetta mál, leiðrétting á kjörum lífeyrisþega, er að mínu mati jafnstórt og kvótamálið. Ef ríkisstjórnin leiðréttir ekki kjörin má hún mín vegna fara frá.
Björgvin Guðmundsson
Birt í Morgunblaðinu 13.mars 2012
|