Jón Baldvin Hannibalssson var erlendis , þegar alþingiskosningarnar 2003 fóru fram og fylgdist því ekki með kosningabaráttunni þá á sama hátt og þeir sem búsettir voru hér. Hann hefur því ekki nægilega skýra mynd af íslenskri pólitík 2003 til þess að geta gert samanburð við árið 2007.
Vinstri grænir með 8,8% 2003
Í kosningunum 2003 fengu Vinstri grænir aðeins 8,8% en Samfylkingin vann stórsigur og fékk 31%. Vegna skoðanakannana nú, sem sýna mikið fylgi hjá VG og meira fylgi en hjá Samfylkingunni í flestum könnunum, hefur Jón Baldvin verið nokkuð fljótur á sér að úrskurða, að Samfylkingunni hafi mistekist að sameina íslenska jafnaðarmenn. Í ritdómi um bók Steingríms J. Sigfússonar hælir hann Steingrími J. mjög og telur, að hann hafi allt það til að bera sem prýða megi góðan stjórnmálaforingja en um leið finnur hann forustu Samfylkingarinnar flest til foráttu. Með þessum málflutningi færir hann íhaldinu eldsneyti í kosningabaráttunni. Það hefur hins vegar ekkert breytst hjá Steingrími J. á 4 árum. Hann rak kosningabaráttuna á svipaðan hátt 2003 og hann hefur gert nú. En samt náði hann litlum árangri 2003. Ingibjörg Sólrún var ef til vill örlítið harðari við íhaldið 2003 ( við Davíð) og hún náði miklum og góðum árangri. Sumum eðalkrötum fannst Ingibjörg Sólrún ráðast fullhart á Sjálfstæðisflokkinn 2003. Nú eru árásir mildari og fylgið minna.
Umhverfismálin sækja á
Hvað hefur breytst á 4 árum?
Það, sem hefur breytst er það , að þjóðin breytti allt í einu um skoðun á umhverfismálum. Þjóðin sá allt í einu, að hún þurfti að sinna umhverfisvernd meira en áður og draga úr stóiðjustefnunni. Þetta hefur komið VG vel og hefur ekkert með störf eða stíl Steingríms J. að gera. Hann var vaskur 2003 og hann er vaskur 2007. Samfylkingin lagði mikla vinnu í að semja nýja stefnu í umhverfismálum, Fagra Ísland.Hún virðist ekki hafa náð nægilega vel eyrum kjósenda. En sú stefna er mjög skynsamleg. Ef til vill háir það Samfylkingunni að flestir þingmanna hennar studdu Káraknjúkavirkjun.Það var gert m.a..vegna áhrifa frá þeim sem áður störfuðu í Alþýðuflokknum.
Samfylkingin og VG
2003 hélt Samfylkingin einnig uppi harðri gagnrýni á VG. Ef til vill hefur það átt þátt í minna fylgi VG þá. Nú hefur Samfylkingin lítið sem ekkert gagnrýnt VG vegna tilkomu kaffibandalagsins.Ég mæli ekki með því, að Samfylkingin breyti þar um en þetta skýrir ef til vill stöðu mála í skoðanakönnunum að einhverju leyti.
Ég held, að Jón Baldvin sé á villigötum í mati sínu á stöðu mála og ef til vill vegna þess að hann var erlendis 2003. Enginn veit betur en hann, að gengi stjórnmálaflokka í skoðanakönnunum og kosningum er misjafnt og ekki er skynsamlegt að draga of miklar ályktanir af fylgissveiflum of snemma. Vissulega erum við jafnaðarmenn óþolinmóðir og viljum, að sameining jafnaðarmanna gerist fljótt og vel. En við höfum mátt þreyja þorrann til þessa og munum gera það áfram.
Björgvin Guðmundsson |