Það verður æ erfiðara fyrir kjósendur að átta sig á því hvað greini stjórnmálaflokkana að. Munurinn á stefnu flokkanna hefur minnkað. Þó eru það nokkur atriði,sem geta verið kjósendum til leiðbeiningar í þessu efni. Eitt þessara atriða er skattastefna stjórnmálaflokkanna og aðgerðir ríkisstjórnarinnar í skattamálum.
Núverandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins hefur lækkað skatta á fyrirtækjum og hátekjumönnum. Hins vegar hafa tekjuskattar á einstaklingum,þ.e. almenningi, ekki verið lækkaðir, ef tekið er tillit til skattleysismarka. Þeir hafa þvert á móti hækkað. Þetta er í samræmi við stefnu Sjálfstæðisflokksins. Sá flokkur hefur ávallt borið hag atvinnurekenda fyrir brjósti og tekið hagsmuni þeirra fram yfir hagsmuni almennings. Það er ekkert við því að segja. Þetta er stefna Sjálfstæðisflokksins. En hins vegar vekur það undrun,að Framsóknarflokkurinn,sem var upphaflega samvinnu-og félagshyggjuflokkur skuli hafa lagt blessun sína yfir það, að tekjuskattar atvinnurekenda skuli hafa verið lækkaðir á sama tíma og tekjuskattar einstaklinga hafa hækkað.Skattbyrði launafólks hefur aukist fjórfalt meira en skattbyrði þeirra efnameiri. Þróun skattamála hér á landi hefur verið þveröfug við það sem átt hefur sér stað í öðrum ríkjum OECD að undanförnu .Þar hefur skattbyrði einstaklinga minnkað en skattbyrði fyrirtækja aukist.
Nokkrar deilur hafa verið um skattamálin hér að undanförnu. Stjórnmálamönnum ber ekki saman um hvort tekjuskattar einstaklinga hafi hækkað eða lækkað. Félag eldri borgara fékk hagfræðing til þess að reikna út skattbyrði eintaklinga. Leiddi sú athugun í ljós,að skattbyrði einstaklinga hefði aukist síðan núverandi skattkerfi var tekið upp 1988.Orsökin er sú,að skattleysismörk hafa dregist verulega aftur úr launaþróun. Einna mest hefur skattbyrðin aukist hjá þeim,sem hafa lægstu laun,þar á meðal hjá elli-og örorkulífeyrisþegum. Enda þótt tekjuskattshlutfall einstaklinga ( staðgreiðsla) hafi lækkað frá árinu 1990 úr 39,79% í 38,55% árið 2003 hafa skattar hækkað verulega á þeim sem hafa lægstu tekjur vegna þróunar skattleysismarka.Skattleysismörk hækkuðu úr kr. 53.988 á mánuði árið 1990 í kr. 69.585 árið 2003.Það er mun minni hækkun en nam hækkun verðlags og launa.Ef skattleysismörk hefðu hækkað eins og verðlag á þessu tímabili ættu þau að vera kr. 84.340 á mánuði í ár en ef þau hefðu hækkað eins og laun ættu þau að vera kr. 110.208 á mánuði.Eldri borgari,sem hafði 64.012 í mánaðatekjur 1990 greiddi 6,2% í skatt þá eða 3.989 kr. Í dag greiðir hann af sambærilegum tekjum ( 100.000 kr.) 11,7% í skatt eða 11.722 kr. Tekjur ársins 1990 hafa verið færðar upp til verðlags dagsins í dag.Af þessum tölum er ljóst,að skatturinn hefur hækkað. Hagfræðingur Eldri borgari segir,að lækka þyrfti skattprósentuna ( staðgreiðslu) úr 38,55% í 20,49% til þess að eldri borgari,sem hefur þessar tekjur, greiddi sama hlutfall af tekjum sínum í skatt nú og hann gerði 1990 miðað við óbreytt skattleysismörk.Hagfræðingurinn segir,að allir einstaklingar,sem nú eru með lægri tekjur en kr. 242.000 á mánuði greiði meira í skatt af tekjum sínum en þeir gerðu árið 1990.
Fjármálaráðherra bendir á að þrátt fyrir þetta hafi ráðstöfunartekjur aukist og það skipti mestu máli. Það er sjálfsagt rétt,að ráðstöfunartekjur hafi aukist en þær hafa aukist minna hjá bótaþegum og láglaunamönnum en þeim,sem háar tekjur hafa. Það er einmitt í því sem stjórnarstefnan kemur fram.Það er verið að bæta hag þeirra efnameiri mun meira en þeirra sem minna mega sín.Þjóðarkakan hefur stækkað á undanförnum árum. Það hefði átt að auðvelda það að bæta verulega kjör lífeyrisþega og þeirra,sem lægst hafa launin. Það hefði átt að gera kleift að bæta kjör þeirra meira en kjör hinna efnuðu. En það hefur verið farið þveröfugt að: Kjör þeirra efnameiri hafa verið bætt meira en kjör hinna efnaminni.
Samfylkingin fylgir skattastefnu,sem er þveröfug við stefnu stjórnarflokkanna. Samfylkingin vill lækka skatta á láglaunafólki meira en á hinum efnameiri.Samfylkingin telur,að það hefði átt að ganga fyrir að lækka tekjuskatta einstaklinga í stað þess að byrja á skattalækkun fyrirtækja.Einhvern tímann hefði Framsókn verið sammála þeirri stefnu en ekki í samstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Framsókn hefur fylgt skattastefnu Sjálfstæðisflokksins undanfarin ár. Framsókn ber því ábyrgð á skattaáþján aldraðra,örykja og láglaunafólks ekki síður en Sjálfstæðisflokkurinn.
Björgvin Guðmundsson
viðskiptafræðingur
Birt í Mbl. 2003 |