Össur Skarphéðinsson,formaður Samfylkingarinnar, hefur skýrt frá því,að hann muni taka það upp á Alþingi,að rannsakað verði hvernig íslensk stjórnvöld tóku ákvörðun um að láta Ísland styðja innrás Bandaríkjanna og Bretlands í Írak. Vill Össur láta rannsaka hvort utanríkisráðherra fékk upplýsingar um,að gereyðingarvopn væru í Írak. Hann vill,að athugað verði hvort ríkisstjórnin öll tók ákvörðun um að styðja innrásina eða hvort ákvörðun var aðeins tekin af forsætisráðherra og utanríkisráðherra og jafnvel aðeins í símtali milli þeirra.
Rannsóknarnefnd?
Össur Skarphéðinsson segir,að annað hvort megi fela utanríkismálanefnd umrædda rannsókn eða skipa sérstaka rannsóknarnefnd á Alþingi eins og lög geri ráð fyrir.
Heimasíðan fagnar þessari ákvörðun Össurar. Hér á heimasíðunni hefur margoft verið rætt um nauðsyn þess að fram færi rannsókn á því hvernig ákvörðun var tekin um að styðja innrás í Írak. Málið var hvorki lagt fyrir utanríkismálanefnd né rætt á Alþingi áður en ákvörðun var tekin. Er þar um lögbrot að ræða,þar eð skylt er að leggja öll mikilvæg utanríkismál fyrir utanríkismálanefnd.
Össur segir,að Samfylkingin muni leita samráðs við aðra stjórnarandstöðuflokka um umrædda rannsókn. Er ekki að efa að samstaða næst um málið. Stuðningur ríkisstjórnar Íslands við innrásina í Írak hefur sætt gagnrýni í öllum stjórnarandstöðuflokkunum.
Björgvin Guðmundsson
|