Miklar umræður hafa orðið um ritstjórnarstefnu DV í tilefni af umfjöllum blaðsins um meint kynferðisafbrotamál á Ísafirði og sjálfsmorð meints afbrotamanns í því máli. DV hefur haft þá reglu,að birta nöfn og jafnvel myndir af meintum afbrotamönnum enda þótt ekki væri búið að dæma í málunum. Þessi stefna er mjög umdeild. DV mun eini fjölmiðilli sem hefur þessa stefnu varðandi nafnbirtingar. Aðrir fjölmiðlar bíða dómsniðurstöðu.
DV hefur haft þessa stefnu lengi,sennilega frá upphafi. Það er því ekkert nýtt hjá DV að birta nöfn meintra afbrotamanna þó ekki sé búið að dæma þá. Þessi stefna hefur vakið meiri andúð nú en áður,þar eð meintur afbrotamaður framdi sjálfsmorð og sumir vilja kenna DV um ,að svo fór.
Maður sá,er framdi sjálfsmorð var af DV sagður hafa beitt ungmenni kynferðislegu ofbeldi (nauðgunum).Jónas Kristjánsson ritstjóri DV segir,að þeir sem fordæmi DV nú hafi ekki áhyggjur af fórnarlömbunum,sem urðu fyrir kynferðislegu ofbeldi .Og það virðist rétt. Það minnist enginn á ungmennin sem eru sögð hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi. DV tók viðtöl við þessi ungmenni upp á segulband og þar kemur fram hvað gerðist.
Blað eins og DV sem gagnrýnir harkalega ýmislegt,sem miður fer,getur átt rétt á sér. En blaðið verður að gæta þess að ganga ekki of langt í harkalegri gagnrýni á þá sem ekki hafa verið dæmdir enda þótt þeir hafi orðið fyrir ásökunum. Ég tel,að DV hafi gengið of langt í umfjöllun sinni um mál mannsins frá Ísafirði .
Björgvin Guðmundsson |