Ummæli Sifjar Friðleifsdóttur nýs heilbrigðisráðherra þess efnis,að hún stefndi ekki að því að afnema tekjutengingu almannatryggingabóta hafa vakið mikla furðu marga.Mikið var hringt til Félags eldri borgara í Reykjavík út af þessum ummælum ráðherrans og látin í ljós undrun vegna þeirra.
Jóhanna Sigurðardóttir alþingismaður Samfylkingarinnar spurði heilbrigðisráðherra hvort afnema ætti tekjutengingu almannatryggingabóta. Heilbrigðisráðherra svaraði á þann hátt,sem hér hefur verið rakið.
Samtök aldraðra berjast fyrir afnámi tekjutenginga bóta,einnig Öryrkjabandalagið. Síðasti landsfundur Sjálfstæðisflokksins samþykkti,að afnema ætti strax tekjutengingar grunnlífeyris aldraðra og stefna ætti að afnámi allra tekjutenginga. Fullyrða má,að meirihluti er fyrir því á alþingi að afnema tekjutengingar bóta. að mestu eða öllu leyti. En Sif Friðleifsdóttir heilbrigðis-og tryggingaráðherra vill ekki stefna að afnámi tekjutenginga bóta.
Hugsunin í tekjutengingum hefur ef til vill verið góð í upphafi.En í dag gera tekjutengingar meiri skaða en gagn.Skerðing vegna tekna úr lífeyrissjóði og vegna smá atvinnutekna er mjög óréttlát.Slíka skerðingu verður að afnema.Hugsanlega mætti skerða bætur þeirra tekjuhæstu.En almannatryggingar voru upphaflega stofnaðar,sem tryggingasjóður,sem menn greiddu í og áttu að fá úr án tillits til tekna.
Í Svíþjóð eru engar tekjutengingar bóta almannatrygginga. Í Danmörku eru mjög takmarkaðar skerðingar. T.d. skerða greiðslur úr lífeyrissjóði ekki bætur almannatrygginga þar í landi. Hvergi á Norðurlöndum tíðkast eins miklar skerðingar vegna tekna og hér á landi. Það er hörmulegt,að ungur og nýr heilbrigðisráðherra skuli ekki vilja breyta þessu kerfi.Sennilega hefði Jón Kristjánsson verið jákvæðari í þessu efni en nýi ráðherrann.
Björgvin Guðmundsson |