Vaxtahækkanir Seðlabankans hafa ekki skilað tilætluðum árangri.Þeim var ætlað að slá á verðbólguna og stuðla að því, að Seðalbankanum tækist að halda verðbólgunni innan viðmiðunarmarka, sem eru 2,5%.En það hefur mistekist.Verðbólgan er nú umfram markmið Seðlabankans 25.mánuðinn í röð.
Jafngildir 15,9% verðbólgu á ári
Nýjar tölur Hagstofunnar leiða í ljós,að vísitala neysluverðlags hækkaði um 1,5% frá apríl til mai. Og undanfarna 3 mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 3,8% en það jafngildir 15,9% verðbólgu á ári. Síðustu 12 mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 7,6%. Greiningardeild Glitnis spáir 9% verðbólgu á árinu.Er þetta mesta verðbólga í Evrópu.
Baráttan hefur mistekist
Ljóst er,að barátta ríkisstjórnar og Seðlabanka gegn verðbólgunni hefur mistekist.Seðlabankinn hefur hækkað stýrivexti ört í því skyni að styrkja gengi íslensku krónunnar svo verð innfluttra vara mundi lækka. Þessi ráðstöfun hefur verið mjög umdeild, þar eð hún hefur bitnað mjög á útflutningsatvinnuvegunum, sem hafa fengið minna en áður fyrir útfluttar vörur vegna sterkrar stöðu krónunnar.Ráðstafanir ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum og efnahagsmálum hafa ekki stutt nægilega við stefnu Seðlabankans.Stefna ríkisstjórnarinnar hefur skapað þenslu. Þessir aðilar hafa ekki verið nægilega samstíga í baráttunni við verðbólguna.
Kjarasamningar í uppnámi
Verðbólgan er nú orðin það mikil, að kjarasamningar eru í uppnámi. Ef ekki tekst með einhverjum ráðum að lækka verðbólguna fyrir haustið eru kjarasamningar lausir.Verkafólk sér nú, að þær litlu kjarabætur,sem samningar eiga að veita þeim,brenna upp á verðbólgubálinu.Kjararýrnunin er orðin 5%.Launþegar verða því að fá bætur næsta haust vegna kjararýrnunar af völdum verðbólgunnar. Vonandi tekst að leysa þau mál friðsamlega.En það er engan veginn öruggt. Því meiri sem verðbólgan verður því erfiðara verður að finna friðsamlega lausn.
Björgvin Guðmundsson |