Fundur gamalla" efnavopna "í Írak breytir engu.Ekkert gas í vopnunum!
Fyrrverandi fjármálaráðherra í stjórn Bush, O´Neil,skýrði frá því í sjónvarpsviðtali fyrir skömmu, að Bush Bandaríkjaforseti hefði verið búinn að ákveða að gera innrás í Írak löngu áður en árásin á turnana tvo í New York hefði verið gerð. Hann hefði farið að ræða um slíka innrás skömmu eftir að hann tók við völdum og tekið ákvörðun um hana löngu fyrir árásina á turnana tvo.Af þessu er ljóst,að ástæður þær sem Bandaríkjamenn færðu fram fyrir innrásinni í Írak hafa verið málamyndaástæður einar.
BANDARÍKJAÞING RANNSAKAR MÁLIÐ
Fram hefur komið í Bandaríkjunum, m.a. hjá Carnegie stofnuninni,að CIA,bandaríska leyniþjónustan, hafi gert meira úr hernaðarmætti Írak en ástæður voru til svo auðveldara væri fyrir Bandaríkin að ákveða stríð á hendur Írak. Hafi leyniþjónustan gert mikið úr yfirráðum Írak yfir gereyðingarvopnum.Hið sama er að segja um aðila í varnarmálaráðuneytinu.Bandaríska þingið mun rannsaka þessar staðhæfingar CIA til þess að fá úr því skorið hvort CIA fór vísvitandi með rangt mál í þessu efni.
ENGIN GEREYÐINGARVOPN?
Engin gereyðingarvopn hafa fundist í Írak og engin staðfesting fengist á því að Írak hafi haft möguleika á því að framleiða kjarnorkuvopn. Upplýsingar sem breska leyniþjónustan kvaðst hafa í þessu efni hafa verið bornar til baka. Danskir og íslenskir sprengjusérfræðingar fundu fyrir nokkrum dögum "efnavopn" í jörðu sem sennilega innihalda gas. Mun hér vera um að ræða vopn,sem legið hafa í jörðu í 10 ár og notuð voru í stríði Írak gegn Íran. Bandaríkin létu Írak á þeim tíma í té efni sem gerðu þeim kleift að framleiða efnavopn en Bandaríkin veittu Írak aðstoð í stríði þeirra við Íran. Írak notaði engin efnavopn í stríðinu gegn Kuvait og Bandaríkin urðu ekki vör við nein efnavopn þá. Írak notaði heldur engin efnavopn, er Bandaríkin gerðu innrás í Írak. Ljóst er því,að Írak hefur ekki átt nein ný efnavopn og ekki ætlað að beita þeim. Það stafaði engin ógn af Írak. Þeir höfðu engin gereyðingarvopn og ekkert samband við Al Kaida hryðjuverkasamtökin. Allt tal Bandaríkjamanna um ógn frá Írak voru falsrök.
FUNDURINN HEFUR ENGA ÞÝÐINGU
Fundur gamalla "efnavopna" frá stríðinu við Íran hefur enga þýðingu í þessu sambandi. Morgunblaðið birtir forsíðufyrirsögn með stríðsletri um þennan fund. Er það undarlegt fréttamat og t.d. allt annað en hjá Aftenposten í Noregi,sem er eins konar Morgunblað Norðmanna. Í Aftenposten er þetta lítil frétt. Íslensk stjórnvöld geta ekki réttlætt stuðning sinn við innrásina í Írak með því að benda á fund gamalla "efnavopna",sem legið höfðu 10 ár i jörðu.Í ljós hefur nú komið,að ekkert gas er í vopnum þessum.- Íslenska ríkisstjórnin studdi árásarstríð gegn Írak,sem engin rök voru fyrir. Sameinuðu þjóðirnar samþykktu ekki þetta stríð,utanríkismálanefnd alþingis samþykkti það ekki. Alþingi Íslendinga samþykkti það ekki. Íslenska stjórnin braut lög með því að lýsa yfir stuðningi við innrás Bandaríkjanna í Írak án samþykkis alþingis og utanríkismálanefndar.
Björgvin Guðmundsson
|