Ljóst er,að það ríkja úreltar stjórnunaraðferðir í Framsóknarflokknum.Formaður flokksins virðist hafa alræðis-eða einræðisvald. Það,sem hann ákveður, gildir.Þannig er það þegar ráðherrar eru valdir.Þá ákveður formaður það hverjir eigi að skipa ráðherrasæti.Að nafninu til er málið lagt fyrir þingflokkinn. Það heitir svo,að tillögur formanns um ráðherra séu lagðar fyrir þingflokk. En það er nánast formsatriði. Enda orðaði Jónína Bjartmars alþingismaður það svo,að formaður flokksins ” hefði ákveðið” að Siv Friðleifsdóttir yrði ráðherra á ný. Og þá gildir það.
Framsókn varð að fórna ráðherra
Þegar Framsókn fékk forsætisráðherrann þá gerði Davíð Oddsson kröfu til þess, að Sjálfstæðisflokkurinn fengi einum ráðherra fleiri en hann hafði haft í staðinn.Framsókn varð sem sagt að fórna einum ráðherra. Og formaður flokksins ákvað að fórna Siv Friðleifsdóttir,sem hafði verið umhverfisráðherra. Það kom mjög á óvart,að Siv skyldi fórnað,bæði vegna þess að hún hafði staðið sig vel og vegna þess að hún var annar tveggja kvenráðherra Framsóknar.Auk þess var hún efsti maður á lista flokksins í mjög stóru kjördæmi og hafði staðið sig vel í kjördæminu. En formaður flokksins þurfti ekki að gera neina grein fyrir ákvörðun sinni. Hann ákvað að fórna Siv og það gilti. Ýmsir töldu,að hann hefði fremur átt að fórna Árna Magnússyni, þar eð hann var yngsti ráðherrann og nýkominn á þing. En Árni var krónprinsinn. Hann var handvalinn af formanni til þess að taka við flokknum. Flokksþing átti ekki að ákveða eftirmanninn. Formaður ætlaði sjálfur að gera það. Þess vegna var Siv sparkað. Það mæltist illa fyrir og gat leitt til uppreisnar í flokknum.Nú skyndilega sagði Árni Magnússon af sér ráðherradómi og ákvað að fara í Íslandsbanka í framkvæmdastjórastöðu. Og þá ákvað formaður flokksins upp á sitt eindæmi að setja Siv inn sem ráðherra á ný!
Nær að greiða atkvæði milli manna
Nær væri að láta þingflokkinn greiða atkvæði í óbundinni kosningu um það hver ætti að skipa sæti ráðherra hverju sinni. Og láta þann sem fengi flest atkvæði fá ráðherrastól. En það má ekki. Það mundi þýða lýðræði og binda endi á einræði formanns. Það verður að viðhalda því.
Björgvin Guðmundsson |