Fréttir um að Íbúðalánasjóður hafi lánað bönkum og sparisjóðum 80 milljarða frá því í desember með veði í íbúðalánum hafa vakið mikla athygli. Félagsmálanefnd alþingis tók mál þetta fyrir að kröfu Jóhönnu Sigurðardóttur alþingismanns 21.júlí sl. Var þar m.a. rætt hvort umræddar lánveitingar Íbúðalánasjóðs til banka og sparisjóða stæðust lög. Ekki fékkst ákveðin niðurstaða á fundinum um það atriði en Jóhanna Sigurðardóttir taldi,að umræddir lánasamningar stæðu á ótraustum lagagrundvelli. Hafa frekari útlán Íbúðalánasjóðs sem þau,er hér um ræðir, nú verið stöðvuð.
Farið í kringum lögin
Bankar og sparisjóðir hafa lánað íbúðarkaupendum allt að 25 millj. kr. á íbúð af því fjármagni sem Íbúðalánasjóður lánaði þeim. En samkvæmt lögum er hins vegar hámarkslánsupphæð Íbúðalánasjóðs til einstaklinga 15,9 millj. kr.Ljóst er því,að það er verið að fara í kringum lögin með því að fara með fjármagn Íbúðalánasjóðs gegnum banka og sparisjóði og lána það síðan til einstaklinga,allt að 25 millj. kr. á hverja íbúð. Eðlilegra hefði verið að breyta lögunum og heimila Íbúðalánasjóði að lána allt að 25 millj.kr. á íbúð.
Ábyrgðin Íbúðalánasjóðs
Á fundi félagsmálanefndar alþingis kom fram gagnrýni á lánveitingar Íbúðalánasjóðs til banka og sparisjóða. M.a. var það gagnrýnt,að Íbúðarlánasjóður ber ábyrgðina ef vanskil verða á lánum,sem bankar og sparisjóðir lána af fjármagninu frá Íbúðalánasjóði. Auk þess hefur það verið gagnrýnt,að umræddar lánaveitingar banka og sparisjóða eru ekki bundnar við íbúðarkaup eins og skilyrði er hjá Íbúðalánasjóði. Það er því unnt að nota lánin til annarra nota, ef veitt er veð í fasteign.
Grafið undan Íbúðalánasjóði
Bankar og sparisjóðir hafa sótt það fast að fá að taka við hlutverki Íbúðalánasjóðs.Þeir vilja Íbúðalánasjóð feigan.Með því háttalagi að lána bönkum og sparisjóðum 80 milljarða til þess að endurlána íbúðareigendum hefur Íbúðarlánasjóður veikt verulega framtíð Íbúðarlánasjóðs og opinberað,að sjóðurinn sé sáttur við það,að bankar og sparisjóðir taki við hlutverki Íbúðalánasjóðs. Það er komin upp óskastaða banka og sparisjóða: Þeir fá peninga frá Íbúðalánasjóði og afgreiða þá beint til íbúðareigenda. Íbúðalánasjóður er þá eins og heildsölubanki. Birgir Ísl. Gunnarsson,Seðlabankastjóri,sagði einmitt eftir fund félagsmálanefndar alþingis,að breyta ætti Íbúðalánasjóði í heildsölubanka.
Halda ber Íbúðalánasjóði
Að mínu mati er nauðsynlegt að halda Íbúðalánasjóði í óbreyttri mynd þrátt fyrir þau mistök,sem sjóðurinn hefur nú gert. Ef Íbúðalánasjóður verður lagður niður hækka bankar og sparisjóðir strax vexti á íbúðarlánum. Það er Íbúðalánasjóður sem á stærsta þáttinn í því í dag,að vextir á íbúðarlánum haldast lágir.Ef Íbúðalánasjóður væri lagður niður mundi bankararnir strax daginn eftir hækka vexti á íbúðarlánum. Það yrði áfall fyrir íbúðarkaupendur.Íbúðalánasjóður verður hins vegar að starfa örugglega innan laga og ekki vera á gráu svæði. Og lögin um Íbúðalánasjóð þurfa að vera raunhæf og eðlileg. T.d. þarf að hækka heimildir til lána til einstaklinga úr 15,9 millj.kr. í 25 millj. kr. að mínu mati. Íbúðalánasjóður á ekki að hrekja íbúðareigendur til banka og sparisjóða vegna ákvæða um hámarkslán.
Björgvin Guðmundsson |