Viðskiptahalli er nú meiri en nokkru sinni fyrr og verðbólga einnig mikil.Vaxtahækkanir Seðlabankans hafa ekki skilað tilætluðum árangri.Þeim var ætlað að slá á verðbólguna og stuðla að því, að Seðlabanka tækist að halda verðbólgunni innan viðmiðunarmarka, sem eru 2,5%.En það hefur mistekist.Verðbólgan er langt umfram markmið Seðlabankans í þessum efnum þrátt fyrir stanslausar vaxtahækkanir.
Viðskiptahallinn 109 milljarðar
Halli á vöruskiptajöfnuði landsins nam 109,l milljörðum króna fyrstu 10 mánuði ársins.Til samanburðar má geta þess,að hallinn á sama tímabili á síðasta ári nam 81,8 milljörðum. Ástandið fer því versnandi .Í oktober nam vöruskiptahallinn 7 milljörðum .Þetta er methalli og mikið áhyggjuefni.Alls nam útflutningur á þessu tímabili í ár 193,2 milljörðum en innflutningur 302,4 milljörðum.Það er einkum mikill innflutningur fjárfestingarvara,sem veldur halla á vöruskiptajöfnuðinum en einnig er mikill innflutningur á flutningatækjum og neysluvörum.
..
Verðbólgan 12,5% frá 2004
Á sama tíma og þjóðin býr við methalla í viðskiptum við útlönd fer verðbólgan vaxandi, þegar yfir lengri tíma er litið, og brennir upp kjarabætur launþega og eftirlaunafólks. Frá 2004 nemur verðbólgan 12,5%. Svo virðist þó sem örlítið sé að hægja á verðbólgunni nú. Greiningardeild Glitnis spáir 9% verðbólgu á árinu.Er það mesta verðbólga í Evrópu.
Baráttan hefur mistekist
Ljóst er,að barátta ríkisstjórnar og Seðlabanka gegn verðbólgunni hefur mistekist. Seðlabankinn hefur hækkað stýrivexti ört í því skyni að styrkja gengi íslensku krónunnar svo verð innfluttra vara mundi lækka. Þessi ráðstöfun hefur verið mjög umdeild, þar eð hún hefur bitnað mjög á útflutningsatvinnuvegunum, sem hafa fengið minna en áður fyrir útfluttar vörur vegna sterkrar stöðu krónunnar.Krónan hefur að vísu lækkað nokkuð aftur.Ráðstafanir ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum og efnahagsmálum hafa ekki stutt nægilega við stefnu Seðlabankans.Stefna ríkisstjórnarinnar hefur skapað þenslu. Þessir aðilar hafa ekki verið nægilega samstíga í baráttunni við verðbólguna.
Kjararýrnun er orðin mikil
Verðbólgan er nú orðin það mikil, að kjararýrnun er orðin veruleg.Verkafólk sér nú, að þær litlu kjarabætur,sem samningar eiga að veita þeim, brenna upp á verðbólgubálinu.Greiðslur af húsnæðislánum hafa þyngst verulega og eiga margir láglaunamenn nú erfitt með að halda íbúðum sínum.
Björgvin Guðmundsson
Birt í Fréttablaðinu 8.desember 2006
|