Eitt helsta kosningaloforð Sjálfstæðisflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar vorið 2006 var,að bæta ætti aðbúnað og aðstöðu aldraðra. Það skýtur því nokkuð skökku við, þegar fréttir berast af því í upphafi nýs árs, að Reykjavík undir stjórn Sjálfstæðisflokksins sé að hækka öll þjónustugjöld aldraðra. Þetta eru hrein svik á kosningaloforði.Gjaldskrá vegna félagsstarfs, fæðis, veitinga og þjónustugjalda í þjónustuíbúðum aldraðra hækkuðu að jafnaði um 8,8% 1.janúar 2007.Jafnframt hækkaði verð á frístundastarfi eldri borgara um tæp 10%. Þessi hækkun er meiri en verðbólguhækkunin. Eldri borgara munar verulega um 8,8-10% hækkun, þegar haft er í huga hve lífeyrir eldri borgara er lágur. Þessi hækkun á þjónustugjöldum getur því hæglega leitt til þess,að það dragi úr þátttöku aldraðra í félagsstarfinu í Reykjavík. Ef Sjálfstæðisflokkurinn hefði ætlað að efna kosningaloforð sitt við aldraða hefði átt að lækka þjónustugjöldin og auðvelda með því öldruðum að taka þátt í félagsstarfinu. En Sjálfstæðisflokkurinn fer í öfuga átt.Hann hækkar þjónustugjöldin.
Matarverð hér 62% hærra en hjá ESB
Á sama tíma berast fréttir af því utan úr heimi,að matarverð hér á landi sé 62% hærra en nemur meðaltali í löndum Evrópusambandsins. Er þetta meiri munur en áður var talað um.Munurinn á verði kjöts og brauðvara er enn meiri eða 70-80 %! En nú ljóst, að væntanleg lækkun matvælaverðs hér, sem taka á gildi 1.mars n.k., hrekkur skammt til þess að brúa þetta mikla bil á matvælaverði her og í löndum ESB..Verslunin segir, að verð matvara muni lækka um 10%. Undandarið hefur verð innfluttra matvæla verið að hækka í matvöruverslunum.Innflytjendur segja, að verðið hafi hækkað við innkaup erlendis.Margir óttast hins vegar, að kaupmenn séu að hækka vörurnar nú vegna væntanlegrar lækkunar 1.mars!
Bitnar þungt á öldruðum
Hið háa matvælaverð hér og hækkanir á því bitna þungt á öllu láglaunafólki og ekki síst á öldruðum.Um þriðjungur aldraðra eða um 10 þúsund manns hafa aðeins rúmar 100 þúsund krónur í tekjur á mánuði. Hið geysiháa matvælaverð hér á landi bitnar þungt á þessum hluta aldraðra.Verulegur árangur í því að lækka matvælaverðið næst ekki án mikillar lækkunar landbúnaðarvara. Það þarf að lækka verulega tolla á innfluttum landbúnaðarvörum og auka samkeppni á þessu sviði. Einnig þarf að lækka verð á lyfjum. Hið geysiháa lyfjaverð bitnar þungt á ölduðum. Undanfarið hefur verð á ýmsum nýjum lyfjum, svo sem krabbameinslyfjum, stórhækkað. Hefur þessi hækkun komið mjög illa við aldraða.
Björgvin Guðmundsson
Birt í Fréttablaðinu 30.janúar 2007 |