Hér á árum áður,þegar afkoma fyrirtækjanna í landinu var í járnum, var það jafnan viðkvæði atvinnurekenda,að atvinnureksturinn þyldi ekki að veita verkafólki kjarabætur.Í dag er afkoma fyrirtækjanna allt önnur.Þau græða á tá og fingri og sum þeirra vita ekki aura sinna tal.En samt er spiluð sama platan og áður: Atvinnureksturinn þolir ekki kauphækkanir.Maður gæti haldið,að fyrirtækin héngju á nástrái.
Bæta verður kjör láglaunafólks
Á meðan atvinnureksturinn var í járnum og sum fyrirtæki rekin með tapi var það afsakanlegt,að verkalýðshreyfingin færi varlega í kröfugerð. En í dag þegar fjöldi fyrirtækja en rekinn með ofsagróða og atvinnureksturinn í heild stendur vel er ekki réttlætanlegt,að verkalýðshreyfingin haldi að sér höndum.Verkalýðshreyfingin verður að herða sig. Hún verður að gera kröfu til þess að launþegar fái réttláta hlutdeild í góðærinu. Og fyrst og fremst verður verkalýðshreyfingin að berjast fyrir leiðréttingu á launum hinna lægst launuðu. Það er til skammar,að laun hinna lægst launuðu séu aðeins rúmar 100 þúsund krónur í miklu góðæri og þegar fyrirtækin skila miklum gróða. Ef ekki er unnt að bæta kjör láglaunafólks nú þá er það aldrei mögulegt.
Nú er lag
Mér finnst verkalýðshreyfingin orðin full værukær.Hún verður að taka sér tak og herða sig verulega. Nú er lag til þess að bæta verulega kjör launþega.Ekki er nauðsynlegt,að allar kjarabætur verði í formi kauphækkana. Ýmis önnur hagsmunamál launþega geta einnig komið að gagni. Aðalatriðið er það að nota góðærið til þess að þrýsta kjörum launþega upp.
Það má ekki dragast lengi.Enda þótt samningar séu ekki lausir er strax unnt að undirbúa kröfugerðina og byrja að reka áróður fyrir réttlátum kröfum launafólks.
Björgvin Guðmundsson
Birt í Blaðinu 3.febrúar 2006 |