Stefán Ólafsson prófessor fjallaði um skattamál og þróun velferðarkerfisins á Íslandi í viðtali við NFS 2.september sl. Stefán sagði, að meiri hægri stefna hefði verið rekin hér sl. 11 ár en hafi verið undir stjórn Thatchers og Reagan í Bretlandi og í Bandaríkjnunum. Báðir þessir erlendu hægri foringjar,Thatcher og Reagan, lækkuðu skatta á fyrirtækjum og hátekjumönnum eins og stjórnir Davíðs Oddssonar gerðu en þeir hækkuðu ekki skatta á launafólki eins og hér hefur gerst. Þess vegna hefur verið hér á landi meiri hægri stefna en í Bretlandi og Bandaríkjunum undir stjórn Thatchers og Reagan. Ójöfnuður hefur á þessu 11 ára tímabili aukist meira á Íslandi en í nokkru öðru vestrænu landi. Og velferðarkerfið íslenska hefur dregist aftur úr velferðarkerfi hinna Norðurlandanna og nálgast
nú það sem gerist í Bandaríkjunum þar sem ástandið í velferðarmálum er verst.Kjör aldraðra og öryrkja hafa dregist aftur úr kjörum þessara hópa á hinum Norðurlöndunum.
Framsókn tekur upp stefnu íhaldsins
Aukinn ójöfnuður og aukið misrétti í skattamálum er í samræmi við stefnu Sjálfstæðisflokksins.En Framsókn segist vilja aðra stefnu. Þess vegna er það undravert, að Framsókn skuli hafa hjálpað íhaldinu að koma hér á íhaldsþjóðfélagi, þar sem ójöfnuður er meiri en í nágrannalöndum okkar og misrétti í skattmálum mikið meira en þar.
En hafa lífskjör ekki batnað hér mikið síðustu 11 ár.? Hefur hagvöxtur ekki verið mikill? Jú. En ef við lítum til baka til síðustu áratuga þá eru lífskjörin ávallt betri á líðandi áratug en á áratugnum á undan.Það hefur verið stöðug framþróun á Íslandi og í Vestur-Evrópu,
.En hagvöxtur hefur ekki verið meiri hér síðasta áratug en t.d. á áratugnum 1970-1980 en þá var hagvöxtur 5%.Það sem er hins vegar að á áratug núverandi stjórnarflokka er það, að gæðunum hefur verið misskipt. Allir landsmenn hafa ekki notið góðærisins. Stórir hópar hafa verið skildir eftir, svo sem aldraðir,öryrkjar og láglaunafólk. Á uppgangstímum búa þessir hópar við mjög slæm lífskjör.Það er til skammar fyrir íslenskt samfélag.Fátækt hefur aukist mikið í góðærinu en hópur fólks hefur á sama tíma getað rakað til sín peningum og margir hinna nýríku greiða aðeins 10% skatt, þ.e. aðeins fjármagnstekjuskatt á meðan allur almenningur og þar á meðal láglaunafólk verður að greiða 36% skatt.Þetta er gífurlegt misrétti. Jafnvel ríkisskattsjóra hefur ofboðið svo mjög þetta misrétti , að hann hefur gefið yfirlýsingu og gagnrýnt þetta.Þó er hann aðeins hlutlaus embættismaður.
Koma verður stjórninni frá
Það er orðin alger nauðsyn að koma ríkisstjórn ójafnaðar og misskiptingar frá völdum og koma í staðinn að ríkisstjórn jafnaðar og velferðar.Það er búið að stórskemma velferðarkerfið og það tekur tíma að lagfæra það. Kvótakerfið hefur einnig farið mjög illa með byggðir landsins. Víða úti á landi er sem sviðin jörð eftir afleiðingar kvótakerfsins.Það er mikið verk að vinna fyrir nýja ríkisstjórn einnig á sviði fiskveiðistjórnunar.
Björgvin Guðmundsson
Birt í Morgiunblaðinu 4.oktober 2006 |