Undanfarna mánuði hefur ríkt vandræðaástand í leikskólum Reykjavíkurborgar vegna manneklu.Það hefur ekki tekist að fá nægilega marga starfsmenn vegna lágra launa.Lág laun í ýmsum umönnunarstörfum,t.d. á hjúkrunarheimilum aldraðra eru til skammar.Allir virðast sammála um að hækka þurfi laun fólks í þessum störfum.Rekstur leikskóla og hjúkrunarheimila er svo mikilvægur,að menn geta ekki hugsað þá hugsun til enda hvernig ástandið væri,ef þessi rekstur stöðvaðist.
Afstýrði stöðvun leikskólanna
Borgarstjórinn í Reykjavík,Steinunn Valdís Óskarsdóttir, tók á sig rögg og beitti sér fyrir myndarlegri hækkun á launum aðstoðarfólks á leikskólum nú fyrir skömmu er gera þurfti nýja samninga við þetta fólk og aðra,er vinna samkvæmt samningum Eflingar hjá Reykjavíkurborg.Steinunn Valdís sýndi mikla röggsemi og kjark,er hún gerði þessa samninga.Ef til vill afstýrði hún stöðvun leikskólanna með þessum nýju samningum.Hún á þakkir skilið fyrir.
Ómaklegar árásir á borgarstjóra
Það hefði mátt ætla,að almenn ánægja mundi ríkja eftir gerð þessara samninga. En það er nú öðru nær. Það hefur verið ráðist harkalega á Steinunni Valdísi,borgarstjóra, vegna samninganna. Málsmetandi stjórnmálamenn og bæjarstjórar hafa verið þar fremstir í flokki. Og hver er ástæðan?” Jú, samningarnir geta valdið verðbólgu og komið af stað launaskriði”.Ja,heir á endemi.Eiga nú nokkrir ófaglærðir starfsmenn á lægstu launum á leikskólum borgarinnar að geta ógnað stöðugleikanum. Ríkið hefur gert fjölmarga samninga á undanförnum misserum,sem hafa verið mun varasamari að þessu leyti til en umræddir samningar Rvíkurborgar. Og hinn nýi útvarpsstjóri ríkisútvarpsins hefur nýlega ráðið fjölmarga nýja starfsmenn frá Stöð 2 á ofurlaunum.Það þarf að upplýsa um þau laun. Í einkageiranum tíðkast miklar yfirborganir og ofurlaun. Forstjórar fyrirtækjanna skammta sér milljónir í laun á mánuði.Bankastjórar og bankaráðsformenn hafa himinhá laun og taka sér hundruð milljóna á grundvelli kaupréttarsamninga..En laun aðstoðarmanna á leikskólum voru rúmar eitt hundrað þúsund kr. á mánuði. Hækkun þeirra ógnar engum stöðugleika.
Á ekki að valda verðbólgu
Hækkun lægstu launa á ekki að vera öðrum,sem hafa góð laun, tilefni til þess að krefjast kauphækkunar. Menn verða um hríð að sætta sig við að launabilið minnki. Hækkun lægstu launa hjá Reykjavíkurborg á ekki að valda verðbólgu eða launaskriði.
Björgvin Guðmundsson |